Fjögur ár frá fyrsta eldgosinu í nær 800 ár
Fjögur ár eru í dag liðin frá því eldgos braust út í Geldingadölum og varð þar með fyrsta eldgosið á Reykjanesskaganum í um 800 ár og það fyrsta í Fagradalsfjallskerfinu í um 6.000 ár. Eldgosið markaði upphaf nýs gosskeiðs á Reykjanesskaga sem stendur ennþá yfir en tíu eldgos hafa orðið á þessum fjórum árum og í raun beðið eftir því ellefta.
Víkurfréttir birtu fyrstar fjölmiðla frétt um að eldgos væri hafið á Reykjanesskaga og mynd því til stuðnings. Myndin var tekin frá Reykjanesbæ og með byggðina í Innri-Njarðvík í forgrunni. Fréttin var eins stutt og hægt var að hafa hana. Á þeirri stundu var ekki ljóst hvar eldgosið ætti upptök og Veðurstofa Íslands staðfesti ekki eldgos fyrr en um 10 mínútum eftir að Víkurfréttir birtu fréttina.
Áhugaverðar staðreyndir um eldgosið í Fagradalsfjalli eru birtar á fésbókarsíðu Veðurstofu Íslands í morgun:
🔹Eldgosið hófst þann 19. mars 2021 kl. 20:45 í Geldingadölum við Fagradalsfjall.
🔹 Áður en gosið hófst, stóð yfir áköf jarðskjálftahrina í meira en þrjár vikur og mældist stærsti skjálftinn 5,6 að stærð.
🔹Þetta var fyrsta eldgosið á Reykjanesskaga í tæp 800 ár og fyrsta gosið í Fagradalsfjallskerfinu í um 6.000 ár. Það stóð yfir í 182 daga og er lengsta gosið af þeim sem hafa orðið frá árinu 2021.
🔹Í lok árs 2019 urðu jarðskjálftahrinur tíðari á Reykjanesskaganum og í janúar 2020 mældist fyrst landris í Svartsengi og jarðskjálftavirkni jókst enn frekar. Þessir atburðir mörkuðu upphaf þess virknitímabils sem nú stendur yfir.
🔹 Síðan fyrsta eldgosið hófst í Fagradalsfjalli árið 2021 hafa alls tíu eldgos orðið á Reykjanesskaganum, þrjú við Fagradalsfjall og sjö á Sundhnúksgígaröðinni.