VF Krossmói
VF Krossmói

Fréttir

Stefnt að 10.000 tonnum hjá Vísi í Grindavík
Miðvikudagur 19. mars 2025 kl. 12:58

Stefnt að 10.000 tonnum hjá Vísi í Grindavík

Frystihús Vísis í Grindavík tekur á móti um það bil helming þess afla sem Vísisskipin afla. Til viðbótar kemur fiskur til vinnslu frá öðrum skipum Síldarvinnslusamstæðunnar. Stefnt er að því að vinna 10.000 tonn á ári en þau markmið hafa tafist vegna náttúruhamfaranna. Vonast er til að markmiðin náist fljótlega. Sagt er frá þessu á heimasíðu Síldarvinnslunnar hf.

Rætt er við Ómar Enoksson, rekstrarstjóra frystihúss Vísis, á síðu Síldarvinnslunnar. Fyrst er hann spurður hve lengi hann hefði starfað hjá Vísi.

VF Krossmói
VF Krossmói

„Ég er búinn að vinna hjá Vísi í um það bil 30 ár og samfellt frá árinu 2007. Ég starfaði alllengi sem tæknistjóri en tók við starfi rekstrarstjóra frystihússins í júní á síðasta ári. Í frystihúsinu tökum við á móti um það bil helmingi þess afla sem Vísisskipin færa að landi og þar er bæði um að ræða línufisk og togarafisk. Hinn helmingur aflans fer til vinnslu í salthúsi fyrirtækisins hér í Grindavík. Nú fer semsagt öll vinnslan hjá Vísi fram í Grindavík en fram til ársins 2014 var fyrirtækið með vinnslustöðvar á Þingeyri, Húsavík og Djúpavogi auk Grindavíkur.

Starfsmannafjöldinn í frystihúsinu er um 70 manns og við erum mest að vinna þorsk og ýsu og erum reyndar nýlega byrjaðir í ufsa einnig. Frá okkur fer fiskurinn bæði ferskur og frystur og síðan frystum við einnig töluvert af léttsöltuðu sem kemur frá frá salthúsinu.

Frá okkur fer fiskurinn víða. Til dæmis fer hann til Belgíu, Frakklands, Ameríku, Bretlands og Spánar. Markaðarnir hafa reynst traustir og það bendir til þess að varan líki vel. Stefnt hefur verið að framleiðsluaukningu eftir að Síldarvinnslan festi kaup á Vísi og það er mjög jákvætt. Langflestir starfsmennirnir í frystihúsinu eru af erlendum uppruna. Þetta er þrælduglegt fólk og stór hluti þess hefur verið lengi hjá okkur, jafnvel í 15 – 20 ár,“ segir Ómar.

Þegar Ómar er spurður um áhrif náttúruhamfaranna við Grindavík á starfsemi frystihússins segir hann að þau hafi ekki verið mikil síðustu mánuðina.

„Auðvitað var röskunin mikil framan af. Til dæmis má nefna að fyrri hluta ársins í fyrra var fiskur unninn í Helguvík. Frá vorinu 2024 til dagsins í dag hefur vinnsla hins vegar gengið fyrir sig með eðlilegum hætti hér í Grindavík þó fólk búi ekki í bænum. Það hafa einungis nokkrir dagar dottið út vegna rýminga.

Við höfum þurft að rýma í síðustu gosum í öryggisskyni en síðan hefur vinnsla hafist fljótlega á ný þegar í ljós hefur komið að bænum er ekki ógnað. Við tökum reglulega rýmingaræfingar hjá Vísi og þær hafa gengið vel. Starfsfólkið hefur tekið þessu ástandi með jafnaðargeði og það er athyglisvert að 98% af starfsfólkinu okkar er sama fólkið og starfaði hér áður en náttúruhamfarirnar hófust. Það er athyglisverð staðreynd,“ sagði Ómar að lokum.