Rockpore í Græna iðngarðinn í Helguvík
Norska nýsköpunar- og umhverfisfyrirtækið Rockpore stefnir að því að hefja starfsemi á Íslandi síðla árs 2026 og hefur í því skyni ritað undir viljayfirlýsingu við Græna iðngarðinn á Suðurnesjum um leigu á rösklega fimmþúsund fermetrum undir starfsemina. Fyrirtækið bætist nú í hóp fimm annarra fyrirtækja frá fjórum löndum auk Íslands, sem hafa skrifað undir samninga eða viljayfirlýsingar um leigu á samtals 16 þúsund fermetrum í Græna iðngarðinum.
Rockpore hefur þróað lausnir í samstarfi við norskar rannsóknarstofnanir og fyrirtæki til að nýta betur hráefni sem til fellur við aðra framleiðslu. Markmið fyrirtækisins er að þróa afurðir sem samræmast alþjóðlegum umhverfisáherslum og umbreyta hliðarafurðum úr annarri framleiðslu í verðmætar afurðir. Framleiðsla fyrirtækisins hefur ekki í för með sér neina mengun en vörur þess nýtast sem kolefnisbindandi byggingarefni m.a. til hafnargerðar, heilsusamlegt fylliefni í gervigrasvelli og sem undirstaða í vatnsræktunarkerfum (hydroponics). Þessi byggingarefni stuðla að sjálfbærum og umhverfisvænum byggingalausnum.
Kjartan Eiríksson framkvæmdastjóri Græna iðngarðsins og Finn Solvang framkvæmdastjóri Rockpore skrifuðu undir yfirlýsinguna.
„Við erum mjög ánægð að þetta frábæra nýsköpunarfyrirtæki skuli velja Græna iðngarðinn fyrir sína framtíðaruppbyggingu. Rockpore bætist nú í hóp þeirra fimm fyrirtækja sem hafa skrifað undir samninga eða viljayfirlýsingar um leigu í Græna iðngarðinum. Staðsetning nálægt öflugri höfn og flugvelli hafði mikið að segja um ákvörðun Rockpore um staðsetningu auk þess að okkar byggingar bjóða upp á mikinn sveigjanleika, stækkunarmöguleika, aðgang að hreinni orku og samstarf um betri orkunýtingu,“ er haft eftir Kjartani Eiríkssyni, framkvæmdastjóra Græna iðngarðsins, í tilkynningu.
„Undanfarin tvö ár höfum við hjá Rockpore nýtt til að undirbúa stofnun verksmiðju til að vinna verðmætar vörur úr vannýttum efnum, m.a. efnum sem hafa orðið eftir í ýmiskonar námuvinnslu.
Við erum stolt af því að hafa fundið samstarfsaðila eins og Græna iðngarðinn. Samstarfið gefur okkur færi á að taka okkar fyrstu skref í útrás okkar umhverfisvænu lausna,“ er haft eftir Finn Solvang, framkvæmdastjóra Rockpore, í sömu tilkynningu.
Rockpore AS var stofnað í janúar 2020 með það að markmiði að þróa hringlaga efni með uppfærslu hliðarafurða úr iðnaði og námuvinnslu. Með því að umbreyta þessum vörum í verðmætar afurðir, gefst tækifæri til að bjóða á markaði fjölbreyttar vörur með nær engu kolefnisfótspori og draga úr sóun. Fyrirtækið leggur þannig áherslu á nýstárlegar og sjálfbærar lausnir sem draga úr umhverfisáhrifum og stuðla að eflingu hringrásarhagkerfisins.
Græni iðngarðurinn, Iceland Eco-Business Park (IEBP), er vistvænn iðngarður staðsettur á Suðurnesjum.
Græni iðngarðurinn leggur áherslu á að byggja upp samfélag fyrirtækja sem vinna saman í bættri nýtingu auðlinda, sjálfbærum lausnum og nýsköpun. Garðurinn býður upp á leiguhúsnæði fyrir skrifstofur, rannsóknir, þróun og framleiðslu fyrir fyrirtæki sem leggja áherslu á sjálfbærni og nýsköpun.