Forsætisráðherra tók skóflustungu að Knarrarneskirkju
- kirkja í 19. aldarstíl rís í túnfætinum að Minna-Knarrarnesi á Vatnsleyuströnd
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra tók fyrstu skóflustunguna að Knarrarneskirkju á þriðjudagskvöld. Kirkjan mun rísa í túnfætinum við Minna-Knarrarnes á Vatnsleysuströnd. Kirkjan verður bændakirkja í 19. aldar stíl sem hjónin Anna Rut Sverrisdóttir og Birgir Þórarinsson reisa. Forsætisráðherra sagði þegar hann tók skóflustunguna að athöfnin væri ein sú skemmtilegasta og mest uppörvandi opinbera athöfn sem hann hefði tekið þátt í.
Áður en skóflustungan var tekin helgaði séra Kristinn Ágúst Friðfinnsson staðinn þar sem kirkjan mun rísa við svokallað Brandsleiði.
Nýliðinn þriðjudagur var mikill hátíðisdagur hjá ábúendum á Minna-Knarrarnesi. Birgir Þórarinsson fagnaði fimmtugsafmæli þennan dag. Þá var Sverrir sonur þeirra Birgis og Önnu Rutar að útskrifast sem verkfræðingur og Þórarinn er útskrifaður stúdent.
Ekki liggur fyrir hvenær Knarraneskirkja verður tilbúin en stefnt er á að það verði innan fimm ára þannig að hægt verði að ferma yngsta fjölskyldumeðliminn að Minna-Knarrarnesi í kirkjunni.
Ástæður þess að Sigmundur Davíð forsætisráðherra tók skóflustungu að kirkjunni má m.a. rekja til þess að Sigmundur á rætur til Minna-Knarrarness en stjórnarmyndunarviðræður Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks fóru einmitt fram á heimilinu að Minna Knarrarnesi.