Glæsilegt Stapasafn opnað almenningi
Nýtt útibú Bókasafns Reykjanesbæjar, Stapasafn, var opnað almenningi við hátíðlega athöfn síðastliðinn föstudag. Vel var mætt á viðburðinn og voru gestir sammála um að útibúið væri allt hið glæsilegasta.
Stapasafn er staðsett í Stapaskóla á Dalsbraut 11 í Innri-Njarðvík. Safnið, sem er samsteypusafn Bókasafns Reykjanesbæjar, mun líkt og undanfarin ár þjónusta þau fjölmörgu börn sem stunda nám í Stapaskóla ásamt starfsfólki hans en nú eru íbúar Reykjanesbæjar einnig boðnir velkomnir til að njóta þeirrar þjónustu sem þar er í boði.
„Markmið bókasafnsins er að veita íbúum aðgang að fjölbreyttum safnkosti og upplýsingum á mismunandi formi,“ sagði Þórey Ösp Gunnarsdóttir, safnstjóri Stapasafns, við tilefnið. „Söfn stuðla að eflingu menningar- og vísindastarfsemi, menntunar, símenntunar, atvinnulífs, íslenskrar tungu, ánægjulesturs og upplýsingalæsis.
Almenningsbókasöfn hafa verið að þróast í spennandi átt á undanförnum árum og þurfa að vera í stakk búin að takast á við nýjar áskoranir í upplýsingasamfélagi framtíðarinnar. Við búum í þekkingarsamfélagi og það er hlutverk bókasafna að bjóða aðgang og tækifæri fyrir öll til að nýta sér upplýsingar og afla sér þekkingar.
Starfsmenn safnsins ætla að eiga í samskiptum við íbúa. Þannig verður Stapasafn miðstöð mannlífs og menningar í hverfinu þar sem metnaður og fagmennska starfsfólks býr íbúum skapandi umhverfi, samveru og jákvæða upplifun.“
Í tilkynningu frá Bókasafni Reykjanesbæjar segir að með tíð og tíma sé stefnt að því að opnunartímar safnsins lengist. Þegar sundlaug opnar í byggingunni og meiri starfsemi verður í húsinu geti viðskiptavinir Stapasafns notað sjálfsafgreiðsluvélar utan mannaðs opnunartíma því húsið mun vera opið á sama tíma og sundlaugin.
Opnunartími Stapasafns verður eftirfarandi:
Mánudaga til föstudaga er opið frá 08:00 til 18:00 og á laugardögum er opið frá 10:00 til 14.00.