HSS
HSS

Fréttir

Glæsilegt Stapasafn opnað almenningi
Þessi fjölskylda lét ræðuhöld ekki trufla sig og naut þess að lesa saman. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 3. febrúar 2025 kl. 16:38

Glæsilegt Stapasafn opnað almenningi

Nýtt útibú Bókasafns Reykjanesbæjar, Stapasafn, var opnað almenningi við hátíðlega athöfn síðastliðinn föstudag. Vel var mætt á viðburðinn og voru gestir sammála um að útibúið væri allt hið glæsilegasta.

Valgerður Björk Pálsdóttir, fulltrúi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, Guðný Kristín Bjarnadóttir, starfandi forstöðumaður Bókasafns Reykjanesbæjar, og Þórey Ösp Gunnarsdóttir, safnstjóri Stapasafns. Valgerður ávarpaði samkomuna og óskaði viðstöddum til hamingju með nýja útibúið um leið og hún færði safnstjórunum blómvönd af tilefni opnunarinnar.

Stapasafn er staðsett í Stapaskóla á Dalsbraut 11 í Innri-Njarðvík. Safnið, sem er samsteypusafn Bókasafns Reykjanesbæjar, mun líkt og undanfarin ár þjónusta þau fjölmörgu börn sem stunda nám í Stapaskóla ásamt starfsfólki hans en nú eru íbúar Reykjanesbæjar einnig boðnir velkomnir til að njóta þeirrar þjónustu sem þar er í boði.

„Markmið bókasafnsins er að veita íbúum aðgang að fjölbreyttum safnkosti og upplýsingum á mismunandi formi,“ sagði Þórey Ösp Gunnarsdóttir, safnstjóri Stapasafns, við tilefnið. „Söfn stuðla að eflingu menningar- og vísindastarfsemi, menntunar, símenntunar, atvinnulífs, íslenskrar tungu, ánægjulesturs og upplýsingalæsis.

Almenningsbókasöfn hafa verið að þróast í spennandi átt á undanförnum árum og þurfa að vera í stakk búin að takast á við nýjar áskoranir í upplýsingasamfélagi framtíðarinnar.  Við búum í þekkingarsamfélagi og það er hlutverk bókasafna að bjóða aðgang og tækifæri fyrir öll til að nýta sér upplýsingar og afla sér þekkingar.

Starfsmenn safnsins ætla að eiga í samskiptum við íbúa. Þannig verður Stapasafn miðstöð mannlífs og menningar í hverfinu þar sem metnaður og fagmennska starfsfólks býr íbúum skapandi umhverfi, samveru og jákvæða upplifun.“

Birta Rós Sigurjónsdóttir og Alexander Grybos léku ljúfa tóna fyrir gesti.

Í tilkynningu frá Bókasafni Reykjanesbæjar segir að með tíð og tíma sé stefnt að því að opnunartímar safnsins lengist. Þegar sundlaug opnar í byggingunni og meiri starfsemi verður í húsinu geti viðskiptavinir Stapasafns notað sjálfsafgreiðsluvélar utan mannaðs opnunartíma því húsið mun vera opið á sama tíma og sundlaugin.

Opnunartími Stapasafns verður eftirfarandi:
Mánudaga til föstudaga er opið frá 08:00 til 18:00 og á laugardögum er opið frá 10:00 til 14.00.

Þórey Ösp Gunnarsdóttir, Guðný Kristín Bjarnadóttir og Stefanía Gunnarsdóttir, fyrrverandi forstöðumaður Bókasafns Reykjanesbæjar.