Til leigu (Skólamatur)
Til leigu (Skólamatur)

Fréttir

Haldið áfram með leikskóla og eftirspurn eftir íbúðalóðum í Suðurnesjabæ
Leikskólinn Grænuborg er í byggingu og áætlað er að hann verði tilbúinn til notkunar fyrir vorið 2024. VF/Hilmar Bragi
Laugardagur 20. janúar 2024 kl. 06:03

Haldið áfram með leikskóla og eftirspurn eftir íbúðalóðum í Suðurnesjabæ

Helstu fjárfestingar í Suðurnesjabæ á árinu 2024 eru áframhald við nýbyggingu leikskólans Grænuborgar í Sandgerði. Áætlað er að leikskólinn verði fullbúinn til notkunar fyrir vorið 2024 og er gert ráð fyrir að framkvæmdakostnaður ársins 2024 verði 285 milljónir kr. Þetta kemur fram í samantekt á vef Suðurnesjabæjar um fjárhagsáætlun og gjaldskrár fyrir árið 2024. Haldið verður áfram með fjárfestingar í innviðum í nýjum hverfum í báðum byggðakjörnum, með gatnagerð og tengdum framkvæmdum og er áætlað að kostnaður við þau verkefni verði alls 275 milljónir kr. á árinu 2024. Mikil eftirspurn er eftir íbúðalóðum í Suðurnesjabæ og er áætlað að uppbygging íbúðarhúsnæðis haldi áfram á fullum krafti næstu misserin.

Hefja framkvæmdir við gervigrasvöll

Gert er ráð fyrir að hafnar verði framkvæmdir við gervigrasvöll á árinu og er fjárheimild til þess verkefnis 200 milljónir kr. á árinu 2024 og 190 milljónir kr. næstu tvö ár á eftir. Þessu til viðbótar eru ýmis minni verkefni á framkvæmdaáætlun ársins 2024.

Flestar gjaldskrár hækka um 7,5%

Flestar gjaldskrár sveitarfélagsins hækka um að meðaltali um 7,5% en algengasta hækkunin er á bilinu 6,5% upp í 8,5%, einhverjir liðir hækka þó meira en aðrir liðir minna. Hækkun þessi er í takt við þróun verðlags samkvæmt samþykktum markmiðum fjárhagsáætlunar.

Töluverðar breytingar eru á kostnaði við sorpmál en sorphirðu- og sorpeyðingargjald verður hér eftir nefnt sorpgjald og er gjald fyrir hvern úrgangsflokk eftir stærð íláta. Hækkun þessa gjalds er í takt við hækkun almennt hjá nágrannasveitarfélögum Suðurnesjabæjar og er að jafnaði um 30%.

Aukinn stuðningur við barnafjölskyldur

Aukin áhersla er á að styðja við barnafjölskyldur í Suðurnesjabæ. Umönnunarbætur fyrir foreldra sem ekki nýta dagvistun hjá dagforeldri hækka úr 45 þús.kr. upp í 100 þús.kr. fyrir hvern mánuð. Fyrsta greiðsla er að loknum réttindum til fæðingarorlofs og eru greiddar þangað til að barn fær inngöngu í leikskóla eða verður tveggja ára.

Niðurgreiðsla dagvistunar hjá dagforeldri hækkar í 80 þús.kr. á mánuði m.v. átta tíma vistun þangað til að barnið nær átján mánaða aldri.

Niðurgreiðsla dagvistunar hjá dagforeldri fyrir börn átján mánaða og eldri verður hækkuð í 112 þús.kr. á mánuði m.v. átta tíma vistun þangað til að barni verður boðin innganga í leikskóla.

Niðurgreiðsla á máltíðum nemenda í grunnskólum Suðurnesjabæjar verður aukin úr 50% upp í 60%, því munu foreldrar greiða 40% í stað 50% áður.

Innleiddur verður fjölskylduafsláttur af máltíðum nemenda í grunnskólum Suðurnesjabæjar þannig að gjaldfrjálst verður fyrir börn frá sömu fjölskyldu umfram tvö.

Tilraun með frístundaakstur

Hafin verður frístundaakstur barna á milli byggðarkjarna virka daga frá kl. 14 til 17 þegar að æfingar eru í íþróttamiðstöðvum. Um tilraunaverkefni er að ræða fram á vorið en verkefnið verður endurmetið í maí m.a. með tilliti til nýtingar.

Í samræmi við áherslu bæjarstjórnar um ábyrgð og aðhald í fjármálum, bæði varðandi rekstur og fjárfestingar, verður á árinu 2024 sérstök áhersla á greiningu á rekstrareiningum sveitarfélagsins í þeim tilgangi að auka aðhald í rekstri.

Nánar má lesa um málið á vef Suðurnesjabæjar.