Stóru Vogaskóli
Stóru Vogaskóli

Íþróttir

Misjöfn staða Suðurnesjaliðanna í úrslitakeppninni í körfuknattleik
Kvenþjóðin hefur haldið heiðri Suðurnesjanna hátt á lofti í úrslitakeppni körfunnar.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
þriðjudaginn 8. apríl 2025 kl. 14:41

Misjöfn staða Suðurnesjaliðanna í úrslitakeppninni í körfuknattleik

Segja má að kvenþjóðin haldi uppi heiðri Suðurnesjaliðanna í úrslitakeppunum í körfuknattleik en öll kvennaliðin eru komin í 2-0 forystu í sínum viðureignum í 8-liða úrslitum og þurfa því bara einn sigur í viðbót til að komast í undanúrslit. Gengi karlaliðanna hefur ekki verið eins gott, grannaliðin Keflavík og Njarðvík eru lent 0-2 undir en Grindvíkingum tókst að jafna sína seríu gegn Val á sunnudagskvöldið.

Bónusdeild kvenna

Njarðvík - Stjarnan

Njarðvíkurkonur hafa unnið nokkuð sannfærandi sigra í báðum leikjunum, unnu fyrsta leikinn á heimavelli 84-75 og leik tvö enn meira sannfærandi, 72-89. Þriðji leikurinn fer fram annað kvöld í Icemar-höll Njarðvíkinga og með sigri tryggja grænu ljónin sig í undanúrslit.

VF Krossmói
VF Krossmói
Keflavík - Tindastóll

Keflavík hefur ekki átt í miklum vandræðum með lið Tindastóls, unnu fyrsta leikinn 92-63 og annan leikinn á Sauðárkróki, 78-90. Næsti leikur er í kvöld á Sunnubrautinni í Keflavík og með sigri tryggja Keflavíkurkonur sig inn í undanúrslitin.

Haukar - Grindavík

Grindavík hefur komið mest á óvart en þær enduðu í 8. sæti deildarkeppninnar og mættu því deildarmeisturum Hauka. Þær unnu fyrsta leikinn eftir æsispennandi framlengdan leik, 86-91 og unnu svo sannfærandi sigur í leik tvö, 87-73. Grindavík missti fyrirliðann sinn, Huldu Björk Ólafsdóttur, í krossbandsslit eftir einungis sex mínútna leik í fyrsta leiknum en það hefur ekki komið að sök.

Þriðji leikurinn fer fram að Ásvöllum í Hafnarfirði og tryggir Grindavík sig áfram í undanúrslitin með sigri. 

Bónusdeild karla

Njarðvík - Álftanes

Eftir kaflaskiptan fyrsta leik þar sem liðin skiptu fjórðungunum nokkuð bróðurlega á milli sín, var Álftanes sterkara í lokin og vann sex stiga sigur, 89-95. Engin spurning var svo í leik tvö, Álftanes var betri aðilinn allan tímann og vann að lokum öruggan sigur, 107-96. Njarðvíkingar þurfa að kafa djúpt til að finna svör en fá kjörið tækifæri á heimavelli í næsta leik til að rétta sinn hlut. Oft geta svona seríur snúist á augabragði en Njarðvík þarf að byrja á að vinna leik þrjú sem verður á föstudagskvöldið.

Valur - Grindavík

Fyrsti leikurinn var æsispennandi og snerist um það í lokin hvort liðið setti stóra skotið niður. Grindavík gat komist yfir þegar tuttugu sekúndur voru eftir en þriggja stiga skot Daniel Mortensen geigaði og Valsmenn kláruðu leikinn á vítalínunni. Allt annað Grindavíkurlið mætti til leiks í öðrum leiknum og þó svo að óþarfa spenna hafi hlaupið í leikinn í lokin, var sigur Grindvíkinga nokkuð sannfærandi, 80-76. Það gæti haft mikil áhrif á niðurstöðuna úr þessari seríu að Kári Jónsson, einn af lykilmönnum Vals, meiddist á hné í fyrsta leiknum og verður ekki meira með. Næsti leikur liðanna er á fimmtudagskvöldið að Hlíðarenda.

Tindastóll - Keflavík

Keflvíkingar hafa heldur betur sýnt hvað í þeim býr en því miður hefur það ekki dugað til sigurs. Í fyrsta leiknum á Sauðárkróki var Keflavík yfir fram í þriðja leikhluta en Stólarnir voru betri á lokasprettinum. Leikurinn í Keflavík var síðan æsispennandi jafn fram á lokasekúndu en skot Callum Lawson á flautunni geigaði, lokatölur 93-96. Tindastóll því komið í 2-0 og getur tryggt sig áfram með sigri á Síkinu á Sauðárkróki á fimmtudagskvöldið. Keflvíkingar eru hins vegar ekki tilbúnir að fara í sumarfrí og ætla sér að sækja sigur norður yfir heiðar.