Haldin verði íbúakosning vegna skipulags í Dalshverfi
Margrét Þórarinsdóttir, oddviti Umbótar telur nauðsynlegt að leggja áherslu á að verja þau grænu svæði sem fyrir eru í Dalshverfi í Reykjanesbæ og tryggja að þau verði ekki skert umfram þörf. „Opin græn svæði eru dýrmæt bæði fyrir íbúa og umhverfið og mikilvægt er að allar breytingar séu skipulagðar í samráði við íbúana á svæðinu,“ segir hún í bókun á bæjarstjórnarfundi 7. janúar sl.
Umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar veitti á dögunum heimild til að auglýsa aðal- og deiliskipulagstillögu fyrir Dalshverfi 1. og 2. áfanga - breyting á deiliskipulagi. Jafnframt verði haldinn íbúafundur á auglýsingatíma. Í bókun Umbótar á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar 17. desember 2024 segir:
„Sveitarfélagið metur það svo að þó að dregið sé úr umfangi opinna svæða á þessum reitum, muni það ekki rýra notagildi eða almenn gæði svæðisins. Umhverfis- og skipulagsráð er að veita heimild til að auglýsa tillögur að aðal- og deiliskipulagi, og á auglýsingartíma verður haldinn íbúafundur til að tryggja samráð við íbúana.
Umbót telur þó nauðsynlegt að leggja áherslu á að verja þau grænu svæði sem fyrir eru og tryggja að þau verði ekki skert umfram þörf. Opin græn svæði eru dýrmæt bæði fyrir íbúa og umhverfið og mikilvægt er að allar breytingar séu skipulagðar í samráði við íbúana á svæðinu.
Umbót leggur til að haldin verði íbúakosning þar sem íbúar fá tækifæri að hafa áhrif á lokaákvarðanir varðandi skipulag svæðisins. Íbúa-kosning stuðlar að lýðræðislegri ákvarðanatöku og tryggir að sjónarmið íbúa séu virt og metin að verðleikum. Við í Umbót teljum að samráð og íbúakosning séu lykilatriði í því að ná sátt um framtíðarskipulag og varðveislu grænna svæða, sem er nauðsynlegt fyrir lífsgæði og sjálfbæra þróun Reykjanesbæjar.“