Heilsugæsla opnar í Vogum
Heilsugæsla HSS í Vogum opnaði fimmtudaginn 16. janúar í glæsilegu nýuppgerðu húsnæði að Iðndal 2. „Það er mikið fagnaðarefni að komið sé að opnun heilsugæslu og má segja að nú séum við komin hringinn því árið 1999 hófst rekstur heilsugæslu hér í Iðndal 2 í Sveitarfélaginu Vogum,“ segir Guðrún P. Ólafsdóttir, bæjarstjóri.
Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja segir það vera merkileg tímamót hjá HSS að að opna aftur heilsugæslu í Vogum. „Þetta er liður í því að færa þjónustuna nær íbúum í Vogum en það er mikilvægt að mæta þörfum íbúa fyrir heilbrigðisþjónustu í nærumhverfi,“ sagði Guðlaug Rakel en hún og Guðrún klipptu á borða í tilefni tímamótanna. Heilsugæsluþjónusta hefur ekki verið í Vogum síðan í Covid.
Sveitarfélagið Vogar og HSS undirrituðu samning um leigu á aðstöðu fyrir rekstur heilsugæslu í sveitarfélaginu og hefur aðstaðan verið innréttuð í samvinnu við HSS. Aðstaðan er til fyrirmyndar, vönduð, hlýleg og rúmgóð.
„Fyrst og síðast snýst þetta um aukna heilbrigðisþjónustu fyrir íbúa í sveitarfélaginu sem geta nú á ný sótt þjónustu í heimabyggð. Við vonumst til að íbúar nýti vel þá þjónustu sem hér verður veitt,“ sagði bæjarstjórinn við opnunina.
Til að byrja með er boðið uppá viðtalstíma hjá lækni og í almennri hjúkrunarmóttöku, fljótlega mun opna móttaka í ung- og smábarnavernd. Í almennri hjúkrunarmóttöku felast bólusetningar, sárameðferðir, eyrnaskol, sprautumeðferðir, blóðþrýstingseftirlit og almenn hjúkrunarráðgjöf. Einnig er boðið uppá símaráðgjöf hjá hjúkrunarfræðingi á þessum dögum. Þessi þjónusta er í boði fyrir skjólstæðinga Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja og er sérstaklega ætluð þeim skjólstæðingum sem búsettir eru í Vogum.
Opnunartímar á heilsugæslunni í Vogum verða til að byrja með á þriðjudögum og fimmtudögum frá 9:00-12:00 og tímapantanir eru í síma 422-0500.