Til leigu (Skólamatur)
Til leigu (Skólamatur)

Fréttir

„Okkar hlutverk að tryggja sem bestar samgöngur fyrir íbúa og fyrirtæki í Reykjanesbæ“
Fimmtudagur 23. janúar 2025 kl. 06:27

„Okkar hlutverk að tryggja sem bestar samgöngur fyrir íbúa og fyrirtæki í Reykjanesbæ“

„Það er okkar hlutverk sem kjörinna fulltrúa að tryggja sem bestar samgöngur fyrir íbúa og fyrirtæki í Reykjanesbæ. Atvinnusvæði okkar nær frá Reykjanesi yfir í Helguvík með nokkrum áherslusvæðum þar á milli. Það er því gríðarlega mikilvægt að við tryggjum að ekki verði lokað á vegtengingar sem nú þegar eru til staðar til að hamla ekki frekari atvinnuuppbyggingu og greiðum samgöngum til og frá Reykjanesbæ.

Greiðar og góðar samgöngur eru ein af megin forsendum þess að atvinnulíf dafni og að umferðaröryggi sé tryggt. Krafa Reykjanesbæjar þarf því að vera skýr. Það er á ábyrgð bæjarstjórnar að leggja þær línur svo tryggja megi hagsmuni Reykjanesbæjar til framtíðar,“ segja bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks í Reykjanesbæ, þau Helga Jóhanna Oddsdóttir, Guðbergur Reynisson og Alexander Ragnarsson, í bókun við fundargerð atvinnu- og hafnarráðs Reykjanesbæjar frá 12. desember.

Í þeirri fundargerð var til umfjöllunar „Samráðsnefnd um þróun hafnarsvæða“. Hjörtur M. Guðbjartsson og Sigurður Guðjónsson fóru yfir það sem fram kom á fundi sem þeir sátu sem fulltrúar í samráðsnefnd um þróun hafnarsvæða með umhverfis- og skipulagsráði, þar sem farið var yfir vegtengingar við Njarðvíkurhöfn og tengingu athafnasvæðisins þar við Reykjanesbraut.

Afstaða atvinnu- og hafnarráðs er skýr varðandi það að allar núverandi vegtengingar við Reykjanesbrautina inn í Reykjanesbæ verði áfram til staðar til að standa vörð um þarfir bæði hafna og atvinnulífs. Mikilvægt er að afstaða Reykjanesbæjar sé skýr í þessu máli.