Tilkynnt um efnaslys í Háaleitisskóla
Tilkynnt var um efnaslys í Háaleitisskóla í Reykjanesbæ skömmu fyrir hádegi í dag en lekið hafði úr brúsa um gólf byggingarinnar.
Í tilkynningu frá Brunavörnum Suðurnesja segir að ein álma skólans hafi verið rýmd og tveir efnakafarar sendir inn til að þynna út efnið með vatni og hreinsa upp ásamt því að innsigla efnabrúsann í eiturefnapoka.
Aðgerðir slökkviliðsins í skólanum tóku um eina og hálfa klukkustund.
Útköll á slökkvilið eru þá orðin 20 talsins það sem af er ári, segir jafnframt í tilkynningunni.