Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hjúkrunarfræðingar á HSS segja upp
Guðrún Ösp Theodórsdóttir, hjúkrunarfræðingur á slysa- og bráðamóttöku HSS, með sorgarbandið. VF-mynd: Hilmar Bragi
Föstudagur 19. júní 2015 kl. 15:26

Hjúkrunarfræðingar á HSS segja upp

- Nokkrar uppsagnir þegar komnar fram og stór hluti hjúkrunarfræðinga að íhuga uppsögn

Þungt hljóð er í hjúkrunarfræðingum á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Hjúkrunarfræðingar við HSS funduðu á mánudag vegna þeirrar stöðu sem komin er upp í heilbrigðiskerfinu. Einhverjir hjúkrunarfræðingar hafa þegar afhent uppsagnir sínar og stór hluti annarra hjúkrunarfræðinga eru að íhuga uppsögn.

Guðrún Ösp Theodórsdóttir, hjúkrunarfræðingur á slysa- og bráðamóttöku HSS, bar sorgarband á hægri handlegg við störf sín í mótmælaskyni við nýsamþykkt lög á verkfall hjúkrunarfræðinga. Hún sagðist hafa miklar áhyggjur af framtíð heilbrigðisþjónustunnar og öryggi sjúklinga. „Ekki að stjórnvöldum hafi verið mjög annt um öryggi sjúklinganna hingað til. Við höfum margoft bent á að öryggi sjúklinga sé ógnað með gríðarlegum niðurskurði síðustu ára án mikilla viðbragða af hálfu stjórnvalda,“ sagði Guðrún Ösp í samtali við Víkurfréttir.

Verkfallið hafði ekki mikil áhrif á starfsemiá slysa- og bráðamóttöku HSS, að sögn Guðrúnar, þar sem öryggismönnun hjúkrunarfræðinga hefur verið sú sama og við eðlilegar kringumstæður.

Guðrún Ösp er ein þeirra sem er að íhuga uppsögn og er byrjuð að kanna aðra atvinnumöguleika. „Eitt skil ég ekki. Möguleg launahækkun hjúkrunarfræðinga  veldur samstundis hækkun á stýrivöxtum en launahækkun lækna og kennara hafði engin áhrif á stýrivexti. Ég þyrfti að fá útskýringar á þessu hjá hagfræðingi, enda bara hjúkrunarfræðingur,“ segir Guðrún að lokum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024