HS Orka hlýtur UT-verðlaunin
Sjálfvirkt eldgosaviðvörunarkerfi, sem auðlindastýring HS Orku hefur þróað, hlaut í dag UT-verðlaun Skýs í flokki stafrænnar opinberrar þjónustu. Viðvörunarkerfið er fyrsta kerfið sinnar tegundar í heiminum og eru verðlaunin mikil viðurkenning og um leið staðfesting á mikilvægi verkefnisins.
Forseti Íslands, frú Halla Tómasdóttir, afhenti verðlaunin við hátíðlega athöfn á UTmessunni í Hörpunnií gær og tók Lárus Þorvaldsson, yfirforðafræðingur HS Orku, við verðlaunum fyrir hönd auðlindastýringarteymisins.
Hugbúnaðurinn í kerfinu les inn gögn sem send eru á hverri mínútu frá þrýsti- og hitamæli sem staðsettur er á 850 metra dýpi í borholu 12 í Svartsengi. Hugbúnaðurinn greinir því næst gögnin og ef þrýstimerkið bendir til þess að kvika sé á hreyfingu eru sjálfvirk viðvörunarskilaboð send til Veðurstofu Íslands. Viðvörunarkerfið hefur reynst afgerandi í því að upplýsa Veðurstofuna og Almannavarnir um yfirvofandi eldgos og er kerfið nýtt þar við ákvarðanir um rýmingar.
Átján vinnustaðir og verkefni voru tilnefnd að þessu sinni en verkefni HS Orku var eitt þriggja í flokknum stafræn opinber þjónusta. Hin tvö voru Auðkenni og Kosningalausnir RÚV.
Ský er félag fyrir fólk og fyrirtæki í upplýsingatækni og stendur félagið fyrir hinni árlegu UTmessu. UT-verðlaunin eru veitt fyrir mikilvægt framlag til upplýsingatækni á Íslandi og voru þau veitt í sextánda sinn í gær.