Kjarnorkukafbátar fá þjónustu frá Helguvík
Kjarnorkukafbátar Bandaríkjanna verða þjónustaðir frá Helguvík. Þetta hefur mbl.is eftir utanríkisráðhewnna. Bátarnir munu sjást vel frá landi, en þeir verða að líkindum í 5-10 km fjarlægð frá strandlengjunni. Fyrsti bátur er væntanlegur mjög fljótlega og er gert ráð fyrir að fjöldi heimsókna verði allt að tíu á ári.
Auk utanríkisráðuneytisins munu Landhelgisgæsla Íslands, Geislavarnir ríkisins og ríkislögreglustjóri koma að verkefninu. Þá mun skip Landhelgisgæslunnar m.a. sinna eftirliti þegar verið er að þjónusta kafbáta Bandaríkjanna.
Þórdís Kolbrún segir í sömu frétt mbl.is að koma kafbáta hingað til lands ekki munu hafa áhrif á eftirlitsflug Atlantshafsbandalagsins (NATO) frá Keflavík. Umsvif þar hafa þó aukist síðastliðin ár og munu að líkindum gera það áfram.
Bandarískir kafbátar hófu í fyrra að koma til Færeyja og hafa komið þrisvar sinnum. Í eitt skipti var um að ræða komu vegna áhafnaskipta, einu sinni vegna veikinda um borð í bátnum og einu sinni í kurteisisheimsókn. Kjarnorkukafbátar Bandaríkjanna geta núna sótt þjónustu á Íslandi, í Færeyjum og í Noregi.