Mikill áhugi á Helguvíkurhöfn
NATO vill olíubirgaðstöð fyrir skipagasolíu | Verkefnin passa vel við sýn um hringrásariðngarð í Helguvík
Helguvík er sýndur mikill áhugi um þessar mundir undir verkefni fyrir hafnsækna starfsemi. Halldór Karl Hermannsson, sviðsstjóri atvinnu- og hafnarsviðs hjá Reykjanesbæ, segir í samtali við blaðið að þau verkefni sem séu til skoðunar passi öll við þá sýn að í Helguvík sé hringrásariðnaður með grænni nýtingu og sjálfbærni.
Vel þurfi að vanda til verka þegar verkefni eru valin og miðað við þær fyrirspurnir sem eru í gangi núna og ef öll þau verkefni yrðu að veruleika væri ljóst að Helguvíkurhöfn annaði ekki eftirspurð. „Þá yrðum við að segja nei við einhverjum þessara verkefna,“ segir Halldór Karl. Þessi áhugi á hafnaraðstöðu setur á sama tíma þrýsting á fyrirtæki að hraða ákvarðanatöku, þar sem hafnaraðstaða á suðvesturhorninu sé í dag takmörkuð auðlind.
Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir (FSRE), fyrir hönd utanríkisráðuneytis og Landhelgisgæslu Íslands, áformar að byggja nýja olíubirgðastöð fyrir skipagasolíu við Helguvík. Jafnframt er áformað að gera viðlegukant við suðvestanverða Helguvíkurhöfn í samstarfi við Reykjaneshöfn og Vegagerðina. Framkvæmdin er kostuð af mannvirkjasjóði Atlandshafsbandalagsins (NATO).
Framkvæmdin felur í sér gerð viðlegukants við Suðurbakka Helguvíkurhafnar og uppbyggingu olíubirgðastöðvar fyrir skipagasolíu sunnan hafnarinnar. Reiknað er með tveimur 15.000 m3 olíugeymum, alls 30.000 m3 geymum fyrir skipaeldsneyti við Helguvík.
Reiknað er með að í byrjun árs 2025 verði lögð fram umsókn í mannvirkjasjóð NATO og hálfu ári seinna verði hægt að hefja vinnu við hönnun mannvirkja, undirbúning útboðs o.fl. Framkvæmdir gætu því hafist á seinni hluta árs 2026 eða byrjun árs 2027. Reiknað er með að framkvæmdir við eldsneytisgeyma og þjónustuhúss taki um tvö til tvö og hálft ár, segir í greinargerð framkvæmdaaðila.
Halldór Karl segir að Suðurbakki Helguvíkurhafnar geti orðið rúmlega 400 metra langur. Um helmingur þess rýmis yrði fyrir NATO. Við Suðurbakka er einnig gert ráð fyrir aðstöðu fyrir svokölluð ekjuskip. Norðurbakki er í dag 150 metra langur viðlegukantur en skipulag fyrir Helguvíkurhöfn gerir ráð fyrir að hann verði 300 metra langur fullbyggður.