Fréttir

Nýr ráðherra heimsækir Svartsengi
Á verkstað í nýbyggingu orkuversins í Svartsengi. Frá vinstri: Kristinn Harðarson, framkvæmdastjóri framleiðslusviðs, Sunna Björg Helgadóttir, framkvæmdastjóri tæknisviðs, Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis- orku og loftslagsráðherra, Tómas Már Sigurðsson, forstjóri og Lárus M.K. Ólafsson, aðstoðarmaður ráðherra.
Laugardagur 8. febrúar 2025 kl. 06:18

Nýr ráðherra heimsækir Svartsengi

Jóhann Páll Jóhannsson, nýr ráðherra umhverfis, orku og loftslagsmála, heimsótti orkuverið í Svartsengi í liðinni viku ásamt 35 manna hópi starfsfólks ráðuneytisins. Var hópurinn í vettvangsferð um Reykjanes.

Gestirnir fengu yfirgripsmikla kynningu á starfseminni þar sem meðal annars var sagt frá stækkun og endurbótum orkuversins í Svartsengi og þeim áskorunum sem hafa fylgt eldsumbrotunum í Sundhnúksgígum. Einnig var sagt frá stórum þróunarverkefnum sem HS Orka vinnur að en það eru einkum jarðhitavinnsla í Krýsuvík ásamt Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði á Ströndum, í gegnum dótturfélagið VesturVerk.

Framkvæmdirnar við stækkun og endurbætur orkuversins í Svartsengi eru langt komnar og fengu gestir bæði að skoða sig um í eldri hlutum orkuversins og á framkvæmdasvæðinu.

Orkuverið í Svartsengi hefur verið byggt upp í sex áföngum og var fyrsti hluti þess tekinn í notkun árið 1976. Yfirstandandi framkvæmdir eru því í reynd sjöundi áfanginn í uppbyggingu orkuversins og gera áætlanir ráð fyrir gangsetningu í lok þessa árs. Tvö af eldri orkuverunum verða tekin úr notkun þegar hið nýja kemst í gagnið.

Í dag er framleiðslugeta Svartsengis um 66MW en áætlað er að hún geti aukist um allt að 20MW með stækkuninni.