Fréttir

Óeðlileg vinnubrögð ríkisstofnunar að yfirbjóða leigu á almennum markaði
Miðvikudagur 5. apríl 2023 kl. 08:56

Óeðlileg vinnubrögð ríkisstofnunar að yfirbjóða leigu á almennum markaði

Það verður að teljast í hæsta máta óeðlileg vinnubrögð ríkisstofnunar að yfirbjóða leigu á almennum markaði með þeim afleiðingum að fjölskyldur missa húsnæði sitt. Fjölskyldur sem hér hafa sest að, lagt sitt af mörkum til samfélagsins og séð fram á bjarta framtíð í Reykjanesbæ lenda á götunni. Þetta kemur fram í bókun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks í Reykjanesbæ um stöðu í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd, sem lögð var fram á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar í gærkvöldi.

„Við bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hörmum þá stöðu sem upp er komin í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd og leggjum því fram þessa bókun. Í upphafi skal þess getið að gera verður greinarmun á umsækjendum um alþjóðlega vernd annars vegar og flóttafólki, sem fellur undir samning Reykjanesbæjar við ríkið um samræmda móttöku flóttafólks hins vegar. Reykjanesbær hefur gert samning um samræmda móttöku flóttafólks. Sá samningur tekur til um 350 manns sem við tökum á móti, styðjum við aðlögun að samfélaginu og er markmiðið að minnka umfang samningsins á samningstímanum.

Viðreisn
Viðreisn

Reykjanesbær gerði fyrst samning um þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd árið 2004. Sá samningur hefur þróast í áranna rás og þeim sem þar falla undir fjölgað jafnt og þétt. Þróun undanfarinna ára er þó í engum takti við þann fjölda sem nú hefur fengið húsnæði í sveitarfélaginu og telur yfir 1.000 manns og fer hratt fjölgandi. Þessi fjölmenni hópur fólks er í umsjá Vinnumálastofnunnar og er okkur í Reykjanesbæ gert að hlíta einhliða ákvörðun stofnunarinnar um að útvega þessum fjölmenna hópi húsnæði í Reykjanesbæ með tilheyrandi áhrifum á innviði okkar og mannlíf.

Ekki hefur verið gerður samningur um þjónustu við þennan gífurlega fjölda umsækjenda um alþjóðlega vernd en um leið og Vinnumálastofnun hefur útvegað þeim hópi húsnæði, ber okkur skylda til að veita þeim ýmis konar þjónustu og aðgengi að innviðum sveitarfélagsins. Enginn fyrirvari hefur verið gefinn um áform Vinnumálastofnunar um að setja hér í hús hátt í 1.000 manns og því erum við ávallt að bregðast við því að efla þjónustu okkar og innviði til að mæta þessari fjölgun, eftir á.

Áhrifin á íbúa sveitarfélagsins eru þegar orðin víðtæk. Nú síðast berast fréttir af því að leigusalar kjósa að leigja Vinnumálastofnun húsnæði frekar en íbúum sveitarfélagsins. Jafnvel virðist hagkvæmara að leggja niður rekstur hótels, segja öllu starfsfólki upp vinnunni og leigja ríkinu herbergin.

Á fundi með bæjarfulltrúum Reykjanesbæjar þann 21. mars sl. var Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra spurður spurningarinnar „hvers vegna setur Vinnumálastofnun allt þetta fólk í húsnæði í Reykjanesbæ?” Ráðherra svaraði því til að „það er svo mikið laust húsnæði í Reykjanesbæ”.

Við erum ekki viss um að það sé upplifun íbúa Reykjanesbæjar sem eru á leigumarkaði að hér sé allt fullt af lausu húsnæði. Sjálfsagt skal engan undra að húsnæði losni hratt og örugglega ef betra leiguverð býðst frá ríkinu. Þrátt fyrir stöðuga og mjög hraða fjölgun, er eina loforð ráðherra að byggt verði húsnæði fyrir þennan hóp og að það húsnæði verði ekki byggt í Reykjanesbæ. Það er nokkuð ljóst að ríkisvaldið hefur engin úrræði önnur en að þiggja allt húsnæði sem býðst. Það verður þó að teljast í hæsta máta óeðlileg vinnubrögð ríkisstofnunar að yfirbjóða leigu á almennum markaði með þeim afleiðingum að fjölskyldur missa húsnæði sitt. Fjölskyldur sem hér hafa sest að, lagt sitt af mörkum til samfélagsins og séð fram á bjarta framtíð í Reykjanesbæ lenda á götunni. Hvar endar þetta?

Vantraust til ríkisins og Vinnumálastofnunar í þessum efnum er réttilega ríkjandi á meðal íbúa sveitarfélagsins í ljósi þess hvernig mál hafa þróast og þess samráðsleysis sem einkennt hefur aðgerðir Vinnumálastofnunar.

Reykjanesbær er komin langt yfir þolmörk hvað varðar fjölda því er það skýlaus krafa okkar að ekki verði um frekari fjölgun á húsnæði og fjölda umsækjenda um alþjóðlega vernd í Reykjanesbæ. Við förum einnig fram á að okkur og íbúum sveitarfélagsins verði kynnt, hvernig Vinnumálastofnun hyggst standast freistinguna að þiggja enn fleiri leigurými þegar þau standa til boða. Það er ljóst að á meðan eftirspurn er frá ríkinu, traustum greiðanda sem gerir leigusamninga til langs tíma og á hærra leiguverði, verður framboðið til staðar. Ábyrgðin á að tryggja jafnari dreifingu umsækjenda um alþjóðlega vernd á milli sveitarfélaga er ríkisins og við hana verður það að standa.—

Undir bókunina skrifa þau Helga Jóhanna Oddsdóttir, Alexander Ragnarsson og Birgitta Rún Birgisdóttir.