Opna bæjarskrifstofurnar aftur í Grindavík
Bæjarskrifstofur Grindavíkurbæjar munu opna að fullu aftur að Víkurbraut 62 í Grindavík mánudaginn 10. mars. Stór hluti starfseminnar hefur frá rýmingu bæjarins verið í Tollhúsinu í Reykjavík, m.a. vegna nálægðarinnar við Grindavíkurnefndina, en bæjarstjórn Grindavíkurbæjar hefur nú tekið ákvörðun um að flytja skrifstofurnar alfarið aftur heim. Þetta kemur fram á vef Grindavíkurbæjar
Þar er einnig sagt frá því að bæjarstjórn Grindavíkur bókaði eftirfarandi á fundi sínum í gær:
Bæjarstjórn Grindavíkur hefur ákveðið að bæjarskrifstofur sveitarfélagsins flytji alfarið úr Tollhúsinu heim til Grindavíkur.
Bæjarstjórn telur þessar breytingar vera gott skref til stuðnings við uppbyggingu í Grindavík.
Grindavíkursamfélagið er sterkt og metnaðarfullt um uppbyggingu bæjarfélagsins, við erum meðvituð um stöðuna en hugsum vongóð heim.
Bæjarskrifstofunar munu opna mánudaginn 10. mars. Verið velkomin!
Bæjarskrifstofur Grindavíkurbæjar verða opnar kl. 9-15 mánudaga til fimmtudaga en 9-13 á föstudögum.