Nes Íslandsmeistari í rennuflokki
Íslandsmeistarinn í einstaklingskeppni, Ástvaldur Ragnar Bjarnason, keppti fyrir hönd Íþróttafélagsins Ness.
Íslandsmótið í sveitakeppni í boccia 2025 fór fram í Blue-höllinni um helgina þar sem 160 keppendur frá tólf félögum öttu kappi í þessari skemmtilegu íþróttagrein.
Nes hafði sigur á heimavelli í rennuflokki en sveit Suðra frá Selfossi fór á kostum á mótinu og varð Íslandsmeistari í fyrstu og annarri deild. Það var svo ÍFR úr Reykjavík sem hafði sigur í BC 1–5 flokki.
Lionsklúbbar á Suðurnesjum settu sterkan svip á mótið með góðri dómgæslu og ritarastörfum og þá voru félagar í Lions einnig að afhenda verðlaun á mótinu. Stjórn og starfsfólk Íþróttasambands fatlaðra vill koma á framfæri innilegu þakklæti til Lionshreyfingarinnar sem og stjórnar Íþróttafélagsins Ness fyrir vel skipulagt og öflugt mót.
Eftir mót var lokahóf Íslandsmótsins haldið í Stapanum og þar skemmtu keppendur sér vel saman.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, tók meðfylgjandi myndir af keppni á Íslandsmótinu um helgina.