Málarinn jafnar málin
Ef hægt er að draga ályktanir frá fyrstu þremur skiptunum sem Brynjar Hólm Sigurðsson hefur verið í tippleik Víkurfrétta, þá er hann jafnaðarmaður í eðli sínu. Í öllum leikjum hans hefur jafntefli verið niðurstaðan og hann borið sigur úr býtum í einhverjum af þeim úrræðum sem þá er gripið til. Um helgina gerði hann 8-8 jafntefli við Halldór Rúnar Þorkelsson en vann á fimm réttum í leikjum með einu merki, á móti fjórum leikjum hrútsins Rúnars. Rúnari er hér með þakkað fyrir sína þátttöku.
Næsti áskorandi kemur frá Grindavík og er fulltrúi kvenþjóðarinnar. Hún heitir Petra Rós Ólafsdóttir, hefur verið gífurlega dugleg í alls kyns stjórnar- og trúnaðarstörfum fyrir knattspyrnudeild UMFG, þar áður hafði hún spilað með Grindavík og stjórnarstörfin hófust á meðan takkaskórnir voru ennþá reimaðir á hana.
„Eigum við ekki að segja að ég hafi sett kommu aftan við stjórnarstörfin, ekki punkt. Ég ákvað að taka mér frí síðasta haust en fram að því hafði ég verið í kvenna-, unglingaráði, eða í stjórn knattspyrnudeildar UMFG, í u.þ.b. tuttugu ár. Eigum við ekki að segja að ég sé í bakvarðasveitinni og þar sem ég er ekki nema 45 ára gömul þá tel ég allar líkur á að ég gefi kost á mér aftur á einhverjum tímapunkti, eigi síðar en þegar við fjölskyldan flytjum aftur til Grindavíkur. Í dag búum við í Hafnarfirði og unum hag okkar vel en við söknum Grindavíkur, við vitum ekkert hvernig framhaldið verður, þetta er bara óvissa með hvað við gerum þegar yfir lýkur.
Knattspyrnuáhuginn byrjaði þegar ég var ung stelpa, ég byrjaði að æfa sjö ára gömul og spilaði upp í meistaraflokkinn en þurfti tvisvar sinnum að taka pásu vegna barneigna, skórnir fóru svo endanlega upp í hillu þegar þriðja barnið bættist í hópinn en leik lauk ekki þar með, það fjórða bættist svo við. Ég byrjaði í kvennaráði þegar ég var 25 ára og var enn að spila svo knattspyrna, og bara íþróttir yfir höfuð, hefur alltaf verið eitt helsta áhugamálið og þá gefur í raun auga leið að áhuginn á enska boltanum hefur alltaf verið mikill. Ég hef alltaf haldið með liðinu sem er í rétta rauða litnum og viðurkenni fúslega að ég er farin að kíkja á kampavínið sem ég mun bjóða upp á þegar Liverpool verður búið að lyfta enska titlinum. Ég er einmitt nýkomin úr frábærri ferð á Anfield á vegum Njóttu ferða, Siggi Óli er alger snillingur að skipuleggja svona boltaferðir. Við sáum Liverpool rúlla Ipswich upp, mjög skemmtilegt.
Ég hef verið dugleg undanfarin ár að taka þátt í alls kyns leikjum í útvarpi og unnið fullt af verðlaunum en hef minna gefið mig að tippinu. Það verður gaman að mæta öðrum Pool-ara, Binni má búa sig undir hörkuslag við mig,“ sagði Petra Rós.
Snati eða Sámur
„Hvort ég er jafnaðarmaður eða hvað í minni pólitísku hugsun ætla ég ekkert að segja til um hér og nú. Leikirnir hafa einfaldlega þróast svona en ég legg ekki upp með jafntefli þegar ég mæti til leiks, það væri skrítið leikskipulag. Þú mátt kalla mig Snata, Sám eða eitthvað annað hundanafn, ef ég kem mér ekki upp í annað sætið í heildarleiknum. Ég ætla mér sigur og ekkert annað í þessum tippleik, verst að geta ekki séð mína menn í Liverpool í úrslitaleiknum en Englandsmeistaratitillinn verður næg sárabót,“ sagði Brynjar.