Íþróttir

Keflavík og Njarðvík með sigur í lokaumferð Bónusdeildar kvenna
Njarðvík og Keflavík voru bæði í eldlínunni í gærkvöldi.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
fimmtudaginn 20. febrúar 2025 kl. 11:05

Keflavík og Njarðvík með sigur í lokaumferð Bónusdeildar kvenna

Venjulegri deildarkeppni Bónusdeildar kvenna lauk í gær og voru Reykjanesbæjarliðin bæði á meðal keppenda og unnu bæði, Njarðvík vann Þór frá Akureyri á heimavelli, 94-80 og Keflavík vann lið Aþenu á útivelli, 78-80.

Eins og svo aftur áður, var Brittany Dinkins stigahæst Njarðvíkinga, endaði með 29 stig, 10 fráköst og 7 stoðsendingar. Nýi leikmaðurinn, Paulina Hersler, var líka flott og endaði með 27 stig og 7 fráköst, fiskaði heilar 9 villur á andstæðinginn sem setti hann ellefu sinnum á vítalínuna, þar sem hún nýtti tíu þeirra.

Keflavíkurkonur voru í krappari dansi á móti botnliði Aþenu á útivelli en höfðu að lokum sigur, 78-80. Það byrjaði ekki vel, Aþena leiddi eftir fyrsta fjórðung, 26-17 og í hálfleik, 43-37. Keflavík náði vopnum sínum hægt og bítandi og vann að lokum nauman sigur eins og áður sagði. 

Jasmine Dickey var að vanda hlutskörpust, endaði með 25 stig og 15 fráköst. Sara Rún (13 stig), Thelma Dís (12 stig) og Agnes María (11 stig), skiluðu mestu framlagi íslensku leikmannanna.

Venjulegri deildarkeppni er þar með lokið og nú skiptist deildin upp í efri og neðri deild. Njarðvík endaði öðru sæti með 13 sigra og 5 töp, Keflavík í fjórða sæti með 12 sigra 6 töp. Haukar voru efstir með 15 sigra og 3 töp. Grindavík endaði í áttunda sæti með 6 sigra og 12 töp. Nú tekur við ný deildarkeppi þar sem liðin mætast fjórum sinnum og eftir það kemur í ljós hvaða þrjú lið í neðri deildinni komast í úrslitakeppnina.