Íþróttir

Of margir útlendingar í íslenskum körfuknattleik eða fullkomin staða?
Síðustu alíslensku Íslandsmeistararnir, lið Keflvíkinga árið 1989.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
mánudaginn 17. febrúar 2025 kl. 13:00

Of margir útlendingar í íslenskum körfuknattleik eða fullkomin staða?

Samantekt og lokaorð

Víkurfréttir af undanfarna daga fjallað um hinn mikla fjölda útlendinga sem leika efstu deildum í íslenskum körfuknattleik og sitt sýnist hverjum. 

Ekki tókst að vinna styrktaraðila sem vildi láta nafns getið í þessari grein en sá hinn sami er vissulega til, viðkomandi ákvað að hætta fjárstuðningi við félagið sitt því honum hugnaðist ekki á hvaða stefnu íslenskur körfuknattleikur er kominn. Hjá einu ónafngreindu félagi varð til rifrildi milli unglingaráðs og stjórnar meistaraflokkanna. Stjórnin vildi meina að unglingaráðið lægi á miklum fjármunum og vildi nota þá í rekstur meistaraflokkanna og væntanlega blasir við í hvað fjármunirnir áttu að fara, kaupa fleiri eða betri leikmenn. Með þessu er ekki verið að gagnrýna stjórnina, það er hennar að stefna á árangur og venjulega felst í því að keppt er til titla. Hitt er svo annað mál hvernig skilgreina eigi árangur. Hvernig vill félag skilgreina árangur? Telst ekki góður árangur ef titill vinnst ekki? Er tímabilið sem er í gangi vonbrigði hjá u.þ.b. níu liðum í úrvalsdeild karla, og u.þ.b. sex liðum í úrvalsdeild kvenna, ef titillinn endar ekki í skáp viðkomandi félags? Gæti verið að mörg félög þurfi að fara í ákveðna stefnumótunarvinnu þar sem árangur er skilgreindur upp á nýtt? Ef takmark félags er að koma sem flestum leikmönnum upp í meistaraflokk og viðkomandi leikmaður spili í meistaraflokki í x mörg ár, er það þá ekki árangur? Ef takmark félags er að uppalinn leikmaður leiki A-landsleik fyrir Íslands hönd, er þá ekki frábærum árangri náð? Ef uppalinn leikmaður nær að verða atvinnumaður, er það þá ekki frábær árangur? Ef þessi grein fjallaði um knattspyrnu þá myndi það þýða (hugsanlega) mikinn fjárhagslegan ávinning fyrir viðkomandi félag, umhverfi knattspyrnu og körfuknattleiks er gerólíkt. Á sama tíma og KSÍ borgar dómarakostnað og rukkar félögin ekki um margar milljónir í keppnisgjöld, og greiðir fyrir allan þátttökukostnað ungra leikmanna í yngri landsliðum, þá er allt annað uppi á teningnum í körfuknattleik. Það er ekki hægt að gagnrýna Körfuknattleikssamband Íslands fyrir það en KKÍ gæti reynt að tala fyrir að þessum málum verði breytt innan FIBA (Alþjóða körfuknattleikssambandið). Sterkasta Evrópukeppni félagsliða í körfuknattleik heitir Euroleague, leikmenn þeirra félaga eru ekki skyldugir til að mæta til leiks með landsliðum sínum. Á sama tíma fara allar knattspyrnudeildir heimsins í frí þegar landsleikjahlé er, hvort sem það er S-Ameríka eða Evrópa. Þarna gæti körfuknattleikurinn gert margfalt betur.

Það var alveg vitað að þessi grein væri ekki að fara skera úr um hvað sé rétt og hvað sé rangt þegar kemur að þessu eldheita umræðuefni um fjölda útlendinga í deildunum og sitt sýnist hverjum. Í trúnaðarsamtölum [off the record] við ýmsa málsmetandi menn og konur innan körfuboltasamfélagsins, voru flestir þó sammála um að ekki sé gott að vera hræra í regluverkinu á tveggja ára fresti. Sumir vilja meina að forvígismenn annarra deilda í Evrópu hlægi að okkur Íslendingum vegna tíðra breytinga á reglunum og sagan segir að umboðsmenn körfuboltafólks fái dollara-merki [$] í augun þegar minnst er á Ísland, þeir segja sínum skjólstæðingum að bíða með að taka tilboði frá öllum öðrum Skandinavíuþjóðum t.d. og vonast frekar eftir mun betra tilboði frá stórasta landinu, Íslandi. Það ætti kannski að segja þeim sem stjórna körfuboltamálum hér á landi, einhverja sögu. 

Góður punktur kom líka fram, hjá stærri þjóðum er það einfaldlega körfuknattleikssamband viðkomandi þjóðar sem stýrir eins stórum málum og fjöldi útlendinga í deildinni er. Hægt er að taka mýmörg dæmi hér á landi um félög sem stóðu vel að vígi fyrir viðkomandi ársþing KKÍ varðandi fjölda útlendinga því einn útlendinga félagsins var t.d. kominn með íslenskan ríkisborgararétt, af þeim sökum kaus viðkomandi félag gegn fjölgun útlendinga á því þingi. Félögin hugsa mörg hver sem sagt eingöngu um hvað hentar því á þeim tímapunkti, í stað þess að heildarhagsmunir séu hafðir að leiðarljósi. Það eru dæmi um að einstök félög hafi ekki skilað einróma atkvæði síns félags, heldur hafi stjórnarliði sem var að hugsa um hag síns barns, kosið á skjön við aðra í viðkomandi stjórn. Kannski er það séríslenskt að félögin ákveði lögin og reglurnar á ársþingi KKÍ en kannski væri betra að það væri ekki á valdi allra að taka svo stóra ákvörðun, heldur að málsmetandi fólk sem hefur ekki beinna hagsmuna að gæta, ákveði regluverkið. Það gæti síðan verið snúið þar sem allir þekkja alla á stórasta landinu. Hér væri eflaust gott að leita til afreksstjóra ÍSÍ, Vésteins Hafsteinssonar. Hann kemur úr frjálsíþróttaheiminum og hefur hugsanlega engin tengsl við íslensk körfuknattleikslið.

Kannski væri ekki svo galið að sú regla sem verður ákveðin á næsta ársþingi, verði látin gilda í tíu ár t.d. Með því er hið minnsta komið í veg fyrir að ekki sé reglulega hrært í regluverkinu og reynsla komist á viðkomandi reglu.

Það verður fróðlegt að sjá hvaða stefnu forsvarsfólk körfuknattleiks á Íslandi tekur á næsta ársþingi, sem verður haldið verður fljótlega, n.t. 15. mars.

Viðtal við Guðjón Skúlason

Viðtal við Jón Ragnar Magnússon

Viðtal við Jón Halldór Eðvaldsson

Viðtal Draupni Dan Baldvinsson

Viðtal við Elvar Má Friðriksson

Viðtal við Brenton Birmingham

Viðtal við Jóhann Þór Ólafsson

Viðtal við Birgi Má Bragason

Viðtal við Bryndísi Gunnlaugsdóttur