Íþróttir

Fyrsta áhaldamótið í Keflavík
Fjölmenni fylgdist með mótinu og flott tilþrif sáust í Akademíunni um helgina. Myndir: Keflavík/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 20. febrúar 2025 kl. 06:39

Fyrsta áhaldamótið í Keflavík

Þrepamót í fyrsta til þriðja þrepi fór fram í Keflavík um síðustu helgi en þetta er í fyrsta skipti sem fimleikadeild Keflavíkur er boðið að halda Fimleikasambandsmót í áhaldafimleikum. Mótið heppnaðist einstaklega vel og 105 stúlkur kepptu í Keflavík þessa helgina.

Fimleikadeild Keflavíkur átti fjóra keppendur á mótinu og áttu þær allar mjög gott mót.

Guðlaug Emma leikur listir sínar á slánni þar sem hún lenti í fyrsta sæti.

Guðlaug Emma Erlingsdóttir keppti í fyrsta þrepi, fjórtán ára og eldri og hafnaði hún í fyrsta sæti á slá og í öðru sæti á stökki.

Harpa Guðrún Birgisdóttir og Sara Benedikta E. Arnarsdóttir kepptu í þriðja þrepi, þrettán ára og eldri. Harpa hafnaði í fjórða sæti á slá og í níunda sæti af 29 keppendum í fjölþraut. Sara lenti í öðru sæti á gólfi og í sjötta sæti í fjölþraut.

Snædís Líf Einarsdóttir keppti í þriðja þrepi, ellefu ára og yngri og átti mjög gott mót þar sem hún framkvæmdi sumar æfingar í fyrsta skipti á móti. Besti árangur hennar var sjötta sæti á tvíslá.

Í tilefni fyrsta mótsins og 40 ára afmælis fimleikadeildarinnar fór fyrsta merki Fimleikafélags Keflavíkur upp í Akademíunni og kemur einstaklega vel út ská á móti Keflavíkurmerkinu.

Aðstandendur fimleikadeildarinnar voru í skýjunum með mótið og sögðust að því loknu vera einstaklega ánægð að hafa fengið að halda FSÍ-mót; „... og þökkum kærlega fyrir okkur og hlökkum til að halda fleiri mót í framtíðinni í áhaldafimleikum og hópfimleikum en um leið og við fáum nýtt fimleikahús þá getum við vonandi loksins haldið nokkur Fimleikasambandsmót á hverju ári.“