Petra Rós með 11 rétta í tippleiknum og velti Binna af stalli
Petra Rós Ólafsdóttir frá Grindavík kom eins og stormsveipur inn í tippleik Víkurfrétta og átti frábæran laugaradag á tippseðlinum, var með 11 rétta sem ekki bara dugði henni til sigurs gegn 10 réttum Brynjars Hólms, heldur fékk hún kostnaðinn við tippseðilinn endurgreiddan og vel það, heilar 1100 kr. voru í verðlaun fyrir 11 rétta. Seðillinn sem tipparar í tippleik Víkurfrétta þurfa að kaupa, kostar 936 kr.
Petra Rós var himinlifandi yfir árangrinum þegar blaðamaður náði tali af henni.
„Það var frábært að vinna Binna sem var heldur betur búinn að standa sig vel í tippleiknum og ekki skemmdi fyrir að fá peningaverðlaun frá Íslenskum getraunum. Hvað ég geri við afganginn eftir að hafa gert upp kostnaðinn við seðilinn, kemur í ljós en eitt er víst að við fjölskyldan munum gera eitthvað saman fyrir þann pening.“ sagði sigurreif Petra Rós.