Kraftur
Kraftur

Fréttir

Unnið að gerð framtíðarsviðsmynda um Grindavík
Ljósmynd: Vilhelm Gunnarsson
Mánudagur 24. febrúar 2025 kl. 22:58

Unnið að gerð framtíðarsviðsmynda um Grindavík

Vegna eldsumbrotanna á Reykjanesskaga hafa stjórnvöld á liðnum misserum gripið til umfangsmikilla ráðstafana til þess að tryggja öryggi almennings og verja og tryggja virkni mikilvægra innviða. Þetta kemur fram á vef stjórnarráðsins.

Má þar helst nefna:

  • Mikill meirihluti íbúðarhúsa í Grindavík hefur verið keyptur af íbúum og margvíslegur húsnæðis- og fjárhagsstuðningur veittur til að tryggja sem best fjárhagslegt öryggi fólks á miklum óvissutímum.
  • Bygging varnargarða gegn hraunflæði sem ógnar byggð og innviðum.
  • Ýmis greiningarvinna til þess að styrkja viðnámsþrótt og viðbragðsgetu samfélags sem ógn steðjar að.
  • Sérstök framkvæmdanefnd stofnuð um málefni Grindavíkur til að fara með stjórn og samhæfingu aðgerða.

Verkefnum stjórnvalda vegna náttúruvár á Reykjanesskaga er hvergi nærri lokið og fyrirséð að þau muni taka mörg ár enn eða áratugi. Ríkisstjórnin hefur fjallað um ýmis mál tengd Grindavík og öryggi á Reykjanesskaga á fundum sínum og haldið fund í ráðherranefnd um málefni Grindavíkur. Að loknum ráðherranefndarfundi þann 14. janúar sl. fól forsætisráðherra stýrihópi ráðuneytisstjóra í málefnum Grindavíkur að undirbúa frekari stefnumótun ríkisins fyrir ráðherranefnd. Hún felur m.a. í sér:

  • Viðhorfskönnun meðal þeirra sem bjuggu í Grindavík við upphaf hamfaranna.
  • Mat á þörf fyrir frekari úrræði fyrir einstaklinga og fyrirtæki.
  • Gerð sviðsmynda um framtíð Grindavíkur.

Þýskir sérfræðingar ráðgjafafyrirtækisins Deloitte koma að gerð sviðsmynda í samvinnu við stýrihóp ráðuneytisstjóra og ýmsa aðila í ráðuneytum, stofnunum og hjá Grindavíkurbæ. 

Sviðsmyndagreining er gagnadrifin aðferðafræði sem nýtt er til að sjá betur fyrir sér mögulega framtíð við ófyrirsjáanlegar aðstæður. Á slíkum grundvelli verða ákvarðanir markvissari og líklegri til þess að skila betri árangri. Stefnt er að því að niðurstöður verði kynntar um miðjan mars.