Marína Ósk sendir frá sér nýtt lag: Haflína
Nýlega sendi tónlistarkonan Marína Ósk frá sér glænýjan einstúf og ber lagið heitið Haflína. Lagið er í léttleikandi kántrístíl og sungið á íslensku. Keflvíska tónlistarkonan er að vinna að plötu og er stefnt á útgáfu á vormánuðum.
Um lagið segir Marína Ósk.
„Amma var síbrosandi, kaffisötrandi skvísa og hafði hjartahlýju á við suðumark á celcius. Mér fannst mikilvægt að lagið hennar væri ljúft en innihéldi grúv sem hægt væri að dilla sér dálítið við“, segir Marína, en lagið er samið til heiðurs ömmu Marínu, sem lést í fyrra.
Um lagið segir Marína enn fremur: „Lagið sjálft kom til mín fyrir löngu síðan. Textann kláraði ég aftur á móti á síðustu stundu, á miðnætti kvöldið fyrir fyrsta dag í upptökum á nýrri plötu; enda verðugt verkefni að klára texta um slíka heiðurskonu.“
Haflína er sjaldgæft íslenskt kvenmannsnafn og var fyrra nafn ömmu Marínu Óskar, Haflínu Ástu Ólafsdóttur. „Amma var alltaf kölluð Ásta, en ég er nefnd höfuðið á henni, eftir Haflínu nafninu. Amma var rög við að nota nafnið en mér hefur alltaf þótt það fallegt. Mig langaði að semja lag ömmu til heiðurs og við það fékk orðið „haflína“ nýja merkingu“, segir Marína Ósk.
Amma Marínu bjó í Vestmannaeyjum og eyddi Marína mörgum sumrum heima hjá ömmu og afa í Eyjum sem barn. Kennileiti á borð við „Eyjasund“ og „Skansinn“ koma fyrir í textanum og er lagið einskonar ferðakveðja Marínu til ömmu sinnar sinnar sem kvaddi jarðneskt líf og hélt af stað í siglinguna löngu í upphafi árs 2024.
Marína Ósk leggur nú lokahönd á þriðju breiðskífu sína og er platan væntanleg á vormánuðum. Marína, sem síðustu ár hefur verið hvað þekktust fyrir jazzsöng, prófar sig nú áfram með nýjar uppskriftir að músík. „Platan er nokkurs konar samsuða af kántrí, poppi, blús og jafnvel gospeli. Jazzinn er þó ómögulegt að fjarlægja úr stelpunni svo hann er þarna líka“.
Marína samdi sem fyrr segir lag og texta, en með henni leika Kjartan Baldursson á gítar og pedal steel, Ingólfur Magnússon á kontrabassa, Ragnar Ólafsson á píanó og Ásmundur Jóhannsson á trommur, en sá síðastnefndi sá einnig um upptökur og eftirvinnslu.
Marína Ósk á samfélagsmiðlum: