Kvenfélag Keflavíkur
Kvenfélag Keflavíkur

Íþróttir

Venjulegri deildarkeppni kvenna lokið, við tekur tvískipt keppni
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
miðvikudaginn 26. febrúar 2025 kl. 15:21

Venjulegri deildarkeppni kvenna lokið, við tekur tvískipt keppni

Deildarkeppni körfuknattleikskvenna lauk í síðustu viku og í gær hófst tvískipt deild efri og neðri liðan, A- og B-deild. Haukar urðu efstar, Njarðvík í öðru sæti og Keflavík lenti í fjórða sæti. Grindavíkurkonur enduðu í áttunda sæti og verða því í neðri deildinni en í báðum deildum mætast liðin einu sinni innbyrðis. Þegar tvískiptu deildarkeppninni lýkur tekur við úrslitakeppni þeirra fimm liða sem eru í A-deildinni, og þriggja efstu liða í B-deildinni.

Víkurfréttir tóku stöðuna á þjálfurum Suðurnesjaliðanna.

Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Njarðvíkur:

„Við erum bara heilt yfir ánægð með ganginn á okkur. Það hefur verið vöxtur í þessu, við höfum bæði unnið seiglusigra án þess að spila mjög vel og sömuleiðis hitt á mjög góðar frammistöður undanfarið. Erum að leita að stöðugleikanum og getum ekki verið ósátt með lokasprett sem hljóðar upp á sigur í síðustu fimm leikjum. Það urðu breytingar á okkar hóp í janúar. Bo Guttormsdóttir Frost fór til Englands í skóla en á móti fengum við Eygló Kristínu Óskarsdóttur til liðs við okkur frá Keflavík. Paulina Hersler kom svo til liðs við okkur síðar í janúar, en á móti sögðum við upp samningi við Enu Viso. Þessar breytingar hækka liðið okkar töluvert og óhjákvæmilega gerðum við eitthvað af taktískum breytingum í kringum það.  Ég er mjög ánægður með innkomu Pau og Eyglóar í okkar lið.

Við sitjum í öðru sæti í dag og horfum fyrst og síðast á að undirbúa okkur vel fyrir næsta leik og hugsa ekki of langt fram í tímann. Það eru í raun bara úrslitaleikir eftir hjá okkur, hvort sem það er í deild, bikar eða úrslitakeppni. Allt stór tækifæri til að eflast og þroskast og verða betra lið,“ segir Einar Árni.

Sigurður Ingimundarson, annar þjálfara Keflavíkur:

„Tímabilið hjá Keflavík hefur verið upp og ofan hingað til. Væntingar til liðsins voru miklar enda tvöfaldir meistarar síðan í fyrra. Nú þegar að deildarkeppnin er búinn og skipting í efri og neðri helming er að hefjast, er eftirvænting hjá liðinu að gera vel og allir leikmenn spenntir fyrir framhaldinu. Markmið Keflavíkurliðsins er að spila góðan og árángursríkan körfubolta og sjá hvert það leiðir okkur,“ sagði Sigurður.

Þorleifur Ólafsson, þjálfari Grindavíkur.

„Tímabilið í ár er búið að vera skrítið og áhugavert. Við höfum þurft að gera breytingar og lent í meiðslum. Höfum alls ekki gert eins vel og við ætluðum okkur. Núna er liðið full mannað og við erum að verða betri. Við ætlum okkur að halda áfram að bæta okkur og vera tilbúin í úrslitakeppnina,“ sagði Þorleifur.