Grindavík tapaði, Reykjanesbæjarliðin leika í kvöld
Ný deildarkeppni efri og neðri liða í Bónusdeild kvenna hófst í gærkvöldi og voru það liðin í neðri deildinni, B-deild, sem riðu á vaðið. Grindavík þurfti að sætta sig við tap gegn Stjörnunni, 77-64. Keflavík og Njarðvík leika í kvöld í A-deildinni og bæði á heimavelli, Keflavík gegn Val og Njarðvík gegn Þór Akureyri.
Það var mjög lélegur þriðji leikhluti sem gerði út af við Grindavík á móti Stjörnunni, eftir að hafa leitt með einu stigi í hálfleik, töpuðu þær þriðja leikhlutanum 20-7 og voru aldrei líklegar til að brúa bilið.
Ísabella Ósk Sigurðardóttir virðist hafa verið sú eina með lífsmarki hjá gulum, skoraði 16 stig, tók 8 fráköst, stal 4 boltum og varði 3 skot, framlag upp á 27. Sú næsta var með 12 í framlagi.