Kvenfélag Keflavíkur
Kvenfélag Keflavíkur

Íþróttir

Suðurnesjamenn áttu sinn þátt  í að landsliðið komst á Eurobasket
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
miðvikudaginn 26. febrúar 2025 kl. 10:57

Suðurnesjamenn áttu sinn þátt í að landsliðið komst á Eurobasket

„Það gerist eitthvað þegar maður klæðist íslensku landsliðstreyjunni, maður er til í að skilja allt eftir á gólfinu,“ segir Njarðvíkingurinn Kristinn Pálsson en hann var í eldlínunni ásamt félögum sínum í íslenska landsliðinu í körfuknattleik í síðustu viku, sem tryggði sér sæti á Eurobasket, sem er Evrópukeppni landsliða í körfuknattleik. Kristinn var ekki sá eini frá Suðurnesjunum, sveitungi hans úr Njarðvík, Elvar Már Friðriksson, er einn lykilmanna og Grindvíkingurinn Jón Axel Guðmundsson lék fyrri leikinn á móti Ungverjum á útivelli en var meiddur í þeim seinni, sem var á sunnudagskvöld í pakkaðri Laugardalshöll á móti Tyrkjum, sigur í þeim leik tryggði sætið á Eurobasket.

Kristinn var u.þ.b. að snerta jörðina eftir frábæra daga að undanförnu.

„Þetta eru búnir að vera tilfinningaríkir dagar að undanförnu, því er ekki hægt að neita þar sem mikið var í húfi. Við ætluðum okkur að komast á Eurobasket og höfðum til þess tvö tækifæri, nýttum hið fyrra á móti Ungverjum á útivelli illa. Það var eitthvað í spennustiginu hjá okkur sem var ekki rétt og við einhvern veginn náðum okkur aldrei almennilega á strik. Orkustigið þarf að vera rétt þegar verið er að mæta stórþjóðum og einhverra hluta vegna fundum við það ekki gegn Ungverjum. Ég fann hins vegar fyrir leikinn á sunnudagskvöld á móti Tyrkjum að við værum rétt gíraðir enda kom á daginn að við vorum með yfirhöndina allan tímann enda frábærlega studdir af bakkfullri Laugardalshöll. Tyrkirnir komu stundum til baka og minnkuðu muninn en ég hafði aldrei áhyggjur af því að við værum að missa tökin, svo innstilltir vorum við. Ég man ekki eftir að hafa upplifað aðra eins gleðistund þegar lokaflautið gall, léttir, spennulosun, stolt og gífurleg ánægja blandaðist yndislega saman í góðan kokteil. Það var gaman að fagna með liðsfélögunum á sunnudagskvöld, maður á að fagna þegar maður nær markmiðum sínum.“

Eurobasket í fjórum löndum

Ísland hefur tvisvar sinnum áður komist á Eurobasket, 2015 og 2017, í hvorugt skipti tókst að landa sigri. Mótið í ár verður haldið í fjórum löndum, Lettlandi, Finnlandi, Kýpur og Póllandi, dregið verður í riðla 27. mars. Þrátt fyrir góðan árangur núna eru Kristinn og félagar jarðtengdir en mikil tilhlökkun er fyrir lokamótinu.

„Þetta landslið okkar er einfaldlega mjög gott, liðsheildin er ofboðslega sterk og menn þekkja sín hlutverk fullkomlega. Hver einn og einasti leikmaður sem kom við sögu í Tyrkjaleiknum skilaði sínu. Við spilum mjög agressíva vörn sem útheimtir mikla orku og það skemmir ekki fyrir að vera með turninn Tryggva Hlínarson í okkar teig ef andstæðingurinn sleppur fram hjá okkur sem erum framar á vellinum. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að vera með svona stóran og vel hreyfanlegan leikmann eins og Tryggva, sem nýtist okkur frábærlega sóknar- og varnarlega.

Við munum ekki fara fram úr okkur en mætum fullir sjálfstrausts í lokakeppnina. Ísland hefur aldrei náð að vinna leik á Eurobasket og kannski er gott fyrsta markmið að ná fyrsta sigrinum. Það verða sex lið saman í riðli og fjögur efstu komast í 16-liða úrslitin. Á okkar besta degi getum við keppt við öll þessi lið en lykillinn að okkar árangri er að orkustigið sé rétt. Byrjum á að ná fyrsta sigrinum og hver veit nema markmiðið breytist í að komast upp úr riðlinum,“ sagði Kristinn að lokum.