Samkaup
Samkaup

Fréttir

Sameiningarviðræðum Samkaupa, Heimkaupa og Orkunnar hætt
Miðvikudagur 30. október 2024 kl. 17:56

Sameiningarviðræðum Samkaupa, Heimkaupa og Orkunnar hætt

Undanfarna mánuði hafa Samkaup hf. og Skel fjárfestingarfélag hf. átt í samningarviðræðum um samruna Samkaupa og tiltekinna dótturfélaga SKEL. Aðilar hafa framkvæmt áreiðanleikakönnun á samrunafélögunum með aðstoð sérfræðiráðgjafar og í samræmi við ákvæði samkeppnislaga. „Stjórn og starfsfólk Samkaupa hefur tekið þátt í þessum viðræðum af heilindum og lagt í þær mikla vinnu og fjármagn enda höfðum við fulla trú á að samruninn myndi skila ágóða fyrir félagið, hluthafa og viðskiptavini,“ segir í tilkynningu frá Samkaupum.

Á síðustu vikum hafa hinsvegar komið fram upplýsingar og upp komið atvik sem hafa orðið til þess að upphaflegar forsendur samruna voru teknar til endurskoðunar. Niðurstaða þeirra skoðunar var að skynsamlegast væri fyrir fyrirtækið og hluthafa að viðræðum væri hætt og var það samþykkt á stjórnarfundi Samkaupa í dag.

Gunnar Egill Sigurðsson, forstjóri Samkaupa, segir í tikynningu:

,,Fyrir mér, stjórn Samkaupa og starfsfólki eru þetta vonbrigði eftir þá miklu vinnu sem átt hefur sér stað. Fyrir samrunaviðræður við Skel voru stjórnendur Samkaupa búin að teikna upp aðra vegferð til þriggja ára og nú verður sú áætlun virkjuð. Miðar sú vinna að fjölga tekjustoðum félagsins og gera það fjárhagslega sterkara og öflugan samkeppnisaðila á dagvöru- og fleiri neytendamörkuðum.“

Samkaup reka matvöruverslanir um allt land og hefur byggt upp stærsta vildarkerfi á dagvörumarkaðnum síðustu árin með yfir 80.000 vildarvinum. Vildarvinir fá inneign af öllum sínum viðskiptum og aðgang að sér tilboðum í hverri viku. Með þessu bjóða Nettó verslanir lægsta verð á landinu á helstu heimilisvörum og verslanir okkar á landsbyggðinni bjóða vildarvinum sínum lágvöruverð á helstu nauðsynjavörum. Stefnan er að breikka vildarkerfi okkar enn frekar til hagsbóta fyrir neytendur um allt land.“