Skjólstæðingar Krabbameinsfélagsins fá endurgjaldslausa lögfræðiráðgjöf
Forsvarsmenn Krabbameinsfélags Suðurnesja og lögmannsstofunnar LS Legal í Reykjanesbæ gerðu nýverið með sér samstarfssamning sem tryggir skjólstæðingum Krabbameinsfélagsins endurgjaldslausa lögfræðiráðgjöf. Að sögn forsvarsmanna Krabbameinsfélagsins er algengt að skjólstæðingar félagsins þurfi að leysa úr ýmsum lögfræðilegum vandamálum í veikindum sínum og er þetta því mikilvægt hagsmunamál þeirra. Fagna þeir því undirritun samstarfssamningsins.
Unnar Steinn Bjarndal, framkvæmdastjóri lögmannsstofunnar LS Legal, kveðst ánægður með samninginn og tækifærið sem samningurinn veiti lögmönnum stofunnar til að láta gott af sér leiða. Vonast hann til að sem flestir nýti sér þetta.
Skjólstæðingum Krabbameinsfélagsins sem hafa áhuga á því að nýta sér þetta er bent á að hafa samband við starfsmann félagsins.