Skógarás leiðandi í innleiðingu YAP á Íslandi
YAP, Young Athletes Program, hefur að markmiði að stuðla að snemmtækri íhlutun á sviði hreyfifærni, sérstaklega fyrir börn með sérþarfir eða frávik. Heilsuleikskólinn Skógarás, Ásbrú hefur m.a. verið leiðandi samstarfsaðili Íþróttasambands fatlaðra frá upphafi við innleiðingu YAP á Íslandi. Í starfi sínu sem íþróttakennari hefur Ásta Katrín Helgadóttir íþróttakennari og fagstjóri í hreyfingu sýnt frumkvæði og leitt innleiðingarferlið með markvissri hreyfiþjálfun og rannsóknum á árangri. Hún hefur náð að tengja hugmyndafræði YAP við dagleg verkefni og nám í samstarfi við samstarfsfólk.
Ásta Katrín hefur aðstoðað Önnu Karólínu Vilhjálmsdóttur, framkvæmdastjóra Special Olympics á Íslandi, við kynningarstarf á landsvísu, skipulagt verklega sýnikennslu á YAP kynningardögum og kynnt árangursríka aðferðafræði innleiðingar í heilsuleikskólanum Skógarási. Þar hafa öll börnin notið góðs af en sérstakur markhópur hefur verið börn með slaka hreyfifærni, hegðunarvandkvæði, hreyfivirkni eða ADHD og einnig nemendur sem eru t.d. óöruggir eða tvítyngdir.
Rannsóknir sem gerðar hafa verið á heilsuleikskólanum Skógarási hafa sýnt framfarir í hreyfifærni en einnig jákvæð áhrif YAP verkefnisins á félagsleg samskipti, vellíðan, sjálfsöryggi og gleði, sjálfstjórn og tjáningu. Rannsókn á viðhorfi foreldra leikskólabarna í Skógarási til YAP verkefnisins, sýndi fram á að foreldrar töldu sig meðvitaðri um að auka og fylgjast með hreyfiþroska barnsins og þeir töldu að YAP verkefnið hafi haft jákvæð áhrif á hreyfiþroska, samskipti, félagsfærni og hegðun. Rannsókn sýndi einnig að kennarar leikskólans töldu YAP verkefnið hafa haft mjög jákvæð áhrif á hreyfiþroska og félagsfærni og einnig jákvæð áhrif á samskipti og hegðun nemenda. Markmið er að YAP verkefnið styrki börnin, geri þau hæfari til að stíga fyrstu skrefin í íþróttum og stuðli þannig að jákvæðri upplifun og þátttöku allra barna í íþróttastarfi.
Nemendur í íþróttafræði við Háskóla Íslands voru gestir heilsuleikskólans Skógaráss í síðustu viku þar sem þeir kynntu sér YAP hjá þeim Ástu Katrínu og Önnu Karólínu. Víkurfréttir fengu að fylgjast með. Nánar verður fjallað um málið í Suðurnesjamagasíni á næstunni.
Ásta Katrín Helgadóttir, fagstjóri í hreyfinguá Heilsuleikskólanum Skógarás:
YAP hentar mjög vel einstaklingum með frávik
Ásta Katrín Helgadóttir, fagstjóri í hreyfingu á Heilsuleikskólanum Skógarási, hefur unnið með YAP-verkefnið frá árinu 2015. Á Skógarási er lögð mikil áhersla á hreyfingu nemenda. Skipulögð hreyfing er fyrir alla tvisvar í viku og börn með frávik fá einnig aukalega hreyfingu tvisvar í viku.
„Þetta hefur gengið bara mjög vel. Það eru sjö ár síðan ég byrjaði hér og þá hóf ég strax að vera með skipulagða hreyfingu. Síðan kynntist ég Önnu Karólínu sem er framkvæmdastjóri Special Olympics á Íslandi og hún setti þetta verkefni fyrir mig sem heitir Young Athletes Program, YAP. Ég heillaðist mjög mikið af því. Það er mjög einfalt og þarf ekki mikið af tækjum eða tólum í það og ég sá að það hentaði mjög vel í það sem ég var með þegar fyrir. Ég sá líka að þetta prógram hentaði mjög vel einstaklingum með frávik en YAP er upphaflega gert fyrir einstaklinga með frávik, s.s. einstaklinga með ADHD, einstaklinga á einhverfurófi og einnig einstaklinga sem þurfa meiri líkamlega þjálfun og bæta hreyfiþroska.“
Það hefur sýnt sig að hreyfingin er að hjálpa þessum ungmennum sem eru með þessar greiningar?
„Já, mjög mikið. Við sjáum mikinn mun á milli mánaða í rauninni. Ég get nefnt einstakling með slæman hreyfiþroska og eftir þrjá mánuði sáum við talsverðan mun. Einstaklingur sem gat ekki hoppað inn í hring, hann er allt í einu farinn að geta hoppað inn í hringinn og út úr honum aftur án þess að stoppa.“
Hvernig byggir þú upp þetta prógram hérna í stuttu máli?
„Þessu er skipt niður í átta þætti. Við byrjum á grunnfærni og síðan höldum við áfram að byggja ofan á hana þannig að börnin fara að framkvæma flóknari æfingar þar sem við krefjum þau um að hugsa um það sem þau eru að gera og krefjum þau um meiri færni.“
Nú er vitað að mörg börn greinast í kringum sjö ára aldurinn. Eruð þið þá að sjá þessar greiningar birtast í börnum á leikskólanum?
„Já. Við sjáum þó nokkra sem eru með ADHD hér. Það eru einstaklingar sem við tökum þá aukalega og vinnum með í ákveðnu prógrammi sem er byggt á því sem við erum þegar að gera en við gerum áherslubreytingar á því sem við viljum þjálfa þau í. Til dæmis er ekki bara að þau fái þessa útrás, því það er talað um að ADHD-börn þurfi að fá þessa útrás heldur þurfa þau líka að fókusa á hluti. Þau þurfa að læra að einbeita sér og fara eftir réttri röð, hvað er fyrst og hvað kemur næst.“
Eruð þau sem eru að greinast að fá meiri hreyfingu og meira prógram?
„Já, við gerum það. Allir leikskólanemendur koma tvisvar sinnum í viku. Þeir sem eru með einhver frávik eða að við sjáum að þurfa aðeins meira koma tvisvar sinnum í viðbót, þannig að þau eru fjórum sinnum í viku. Tvisvar með sínum hóp og svo tvisvar í pörum þar sem tveir og tveir eru teknir.“
Það er alltaf talað um að hreyfing sé mikilvæg fyrir eldra fólk og einnig þá yngri. Er algengt að íþróttakennarar séu á leikskólum?
„Nei, því miður þá er það alls ekki algengt en auðvitað ættu íþróttakennarar að vera á hverju einasta leikskóla því þar er grunnurinn að heilinn þroskist á eðlilegan hátt, þar sem skipulögð hreyfing fer fram. 95% af heila barns er þroskaður fyrir fimm ára aldur. Það er því mjög mikilvægt að það séu kennarar sem eru í rauninni að þjálfa.“
Þetta prógram sem þú byggir á, er það af alþjóðlegri fyrirmynd?
„Þetta er alþjóðleg fyrirmynd og kemur frá alþjóðasamtökum Special Olympics. Það eru tveir háskólar í Bandaríkjunum sem þróuðu og útbjuggu þessa áætlun í Massachusetts og Boston. Það eru heilmikil fræði á bak við þetta og þessu er ekki bara hent fram. Það er byrjað á grunni og svo byggt upp í flóknari færni og það er mjög mikil hugsun á bak við þetta.“
Hvað eru margir skólar á landinu að fylgja þessu verkefni?
„Ég myndi segja að virkir skólar séu fjórir en við erum endalaust að reyna að bera út boðskapinn. Það gengur frekar illa því það vantar íþróttakennara til að taka þetta og setja inn. Þetta er ótrúlega þægilegt og einfalt prógram og ég mæli með því að leikskólar ráði inn íþróttakennara.“
Þegar við hittum þig þá ertu búin að vera að fræða nemendur í íþróttafræði í Háskóla Íslands. Það hlýtur að vera ánægjulegt?
„Það er mjög skemmtilegt og ég vona svo sannarlega að þau fari eftir því sem ég er að segja þeim og sæki um starf á leikskóla þannig að leikskólarnir verði bara vel útbúnir af íþróttakennurum.“
Kristín Helgadóttir, aðstoðarleikskólastjóri á Skógarási:
Hreyfingin góð viðbót við venjulegt leikskólastarf
Heilsuleikskólinn Skógarás fékk styrk árið 2015 frá Erasmus+ til að fara í YAP-verkefnið með Special Olympics. Ásta Katrín og fleiri aðilar fóru utan til að kynna sér verkefnið og vinna með öðrum löndum í því að innleiða YAP, Young Athletes Program, í heilsuleikskólann Skógarás. Kristín Helgadóttir, aðstoðarleikskólastjóri á Skógarási segir YAP verða góða viðbót við venjulegt leikskólastarf.
„Hreyfing er afar mikilvæg. Við vitum eins og hlutirnir eru í dag þá fá börnin gjarnan iPad í hönd eða sett fyrir framan sjónvarpið og það er því enn mikilvægara en áður að við vinnum vel með hreyfingu strax frá unga aldri.“
Þið hafið verið að sjá góðan árangur?
„Klárlega og við höfum séð þessi börn sem eru með einhverskonar frávik sem við höfum fengið hingað í leikskólann og verið t.d. mjög lin eða með lélega vöðvaspennu, að á þessum tíma sem þau hafa verið hjá okkur hefur það breyst mjög mikið með þessari þjálfun sem er mjög markviss hjá Ástu.“
Kristín hefur starfað í áratugi við leikskóla á Suðurnesjum, bæði í Reykjanesbæ og Suðurnesjabæ. Þegar hún er spurð út í þróun í leikskólastarfinu þá segir hún hana vera mikla.
„Leikskólastigið er mjög mikilvægt skólastig og við verðum að bera mikla virðingu fyrir því. Það er mikið að gerast í heilanum á börnum á aldrinum eins til sex ára, það er svo mikill þroski sem á sér stað. Það sem hefur verið að gerast á leikskólum á síðustu tuttugu árum er ótrúlegt og við erum að vinna mjög markvisst og flott starf þar sem við erum að vinna með leikinn og allt er gert í gegnum hann. Eins og þið sáuð í YAP-tímanum þá er þetta leikur og börn hafa gaman af því þó svo það sé verið að vinna markvisst með hreyfingu.“
Kristín Helgadóttir, aðstoðarleikskólastjóri á Skógarási, Anna Karólína Vilhjálmsdóttir, framkvæmdastjóri Special Olympics á Íslandi og Ásta Katrín Helgadóttir, fagstjóri í hreyfingu á Skógarási.
Anna Karólína Vilhjálmsdóttir, framkvæmdastjóri Special Olympics á Íslandi:
Hreyfiþroski er grundvöllur að öðru námi
Anna Karólína Vilhjálmsdóttir, framkvæmdastjóri Special Olympics á Íslandi, kom með YAP-verkefnið til Íslands en það var sett á fót af Special Olympics fyrir börn á aldrinum tveggja til sjö ára.
„Ég sem gamall íþróttakennari sá að þetta var aðgengilegt og þetta er ókeypis. Ég sá að það var hægt að benda á þetta án þess að valda mikilli aukavinnu í leikskólum. Hér á Íslandi eru leikskólarnir með svo mörg börn og ég ákvað því að fara inn í það kerfi og kynna þetta þar. Árið 2015 fórum við Ásta Katrín og Þóra Sigrún Hjaltadóttir, leikskólastjóri á Skógarási til Rúmeníu að kynna okkur þetta og Skógarás hefur verið forystuleikskóli í þessu máli frá þeim tíma og á ferðum mínum um landið hef ég vísað í þennan leikskóla. Það er búið að leggja fram rannsóknir m.a. með viðtölum við foreldra og kennara um hvernig þetta komi út. Börnin sem núna eru tveggja til fimm ára, þar sem mesta umbreytingin er í líkamanum, munu fara í grunnskóla. Það sýnir sig að börn með frávik eru ekki virk í íþróttum og ég held að það sé af hluta til út af því að þau fá ekki það sem þau þurfa en líka að við þurfum að undirbúa þau vel og gera þau áhugasöm um að fá að vera með. Ég vonast til að þetta verkefni skapi umræðu um áhrif hreyfingar og þannig fari foreldrar með börnin sín, þegar þau koma úr leikskólum, áfram í íþróttastarf. Það ætti að vera fagmenntaður aðili í hverjum leikskóla sem sér um hreyfiþjálfun. Hreyfiþroski er grundvöllur að öðru námi.“
Anna segir að upphaflega hafi þetta verið sett af stað í gegnum Special Olympics og gengur út á einstaklinga með þroskahömlun.
„Ég held að það sé búið að sýna sig að þetta hefur áhrif á alla og öll börn, hvort sem þau eru með frávik eða ekki. Auðvitað reynum að taka börn sem eru með frávik í aukatíma. Ásta Katrín segist sjá árangur hjá börnum með ADHD og það er frábært að sjá dæmin um það. Við höfum ekki vísindalegar rannsóknir héðan en ég veit sjálf að þetta hefur áhrif.“
Háskólanemar í íþróttafræðum fá kynningu á YAP á heilsuleikskólanum Skógarási í Reykjanesbæ.