Fréttir

Tveir flugmiðar í skiptum fyrir týndan hund
Matvælastofnun birtir þessa mynd af hundinum sem ber nafnið „Hunter“
Föstudagur 13. júní 2014 kl. 14:44

Tveir flugmiðar í skiptum fyrir týndan hund

– Hundurinn Hunter er týndur á Miðnesheiði.

Tveir flugmiðar með Icelandair eru í boði fyrir þann sem finnur svartan Border Collie hund sem strauk úr búri á Keflavíkurflugvelli í morgun. Hundurinn er einnig með hvítum skellum.

Hundinn var verið að flytja yfir Atlantshafið og þegar verið var að taka hann frá borði í morgun og setja yfir í aðra flugvél þá opnaðist búrið og dýrið slapp.

Lögregla, hundafangari og björgunarsveitir eru nú að leita að dýrinu sem er á Miðnesheiðinni.

Víkurfréttum barst hringing frá Icelandair rétt í þessu þar sem tveir flugmiðar með  Icelandair eru boðnir í fundarlaun þeim sem nær hundinum og kemur honum til réttra aðila.

Í tilkynningu frá Matvælastofnun segir:
Óhapp varð við flutning á hundi á Keflavíkurflugvelli í morgun með þeim afleiðingum að hann slapp úr flutningsbúrinu. Hundurinn var á leið frá Bandaríkjunum til Svíþjóðar. Leit hófst samstundis en hann er enn ófundinn og stendur leit yfir.

Um er að ræða svartan og hvítan border collie, sem gegnir nafninu Hunter. Eins og flestir vita gilda strangar reglur um innflutning hunda til Íslands, m.a. 28 daga einangrun. Tilgangur þeirra er að tryggja eins og best verður á kosið að ekki berist til landsins ný smitefni. Þessi hundur er bólusettur gegn öllum helstu sjúkdómum en getur borið með sér önnur smitefni og sníkjudýr sem algeng eru erlendis en eru ekki til staðar hér á landi.

Gæludýraeigendur í nágrenni Keflavíkurflugvallar eru beðnir um að gæta þeirra vel á meðan hundurinn er ófundinn og halda hundum sínum hjá sér, ekki sleppa þeim lausum og alls ekki láta þá koma í snertingu við hundinn verði þeir hans varir.

Hver sem kynni að sjá til hundsins er beðinn um að tilkynna það til lögreglunnar á Suðurnesjum án tafar í síma 4201800.
 

SSS
SSS