Fréttir

Tvö handtekin og ein flutt á sjúkrahús
Kona var leidd út í handjárnum skömmu eftir að lögregla kom á vettvang. Stuttu síðar var annar einstaklingur einnig leiddur út í járnum.
Þriðjudagur 5. maí 2015 kl. 16:33

Tvö handtekin og ein flutt á sjúkrahús

- mikill viðbúnaður hjá lögreglu og sjúkraliði við Hafnargötu í Keflavík

Lögreglan á Suðurnesjum gat engar upplýsingar veitt um atvik í húsnæði við Hafnargötu í Keflavík, Reykjanesbæ, nú síðdegis, þegar Víkurfréttir leituðu upplýsinga. Mikill viðbúnaður var hjá lögreglu. Fjórar merktar lögreglubifreiðar voru sendar á vettvang með forgangi og sjúkrabifreið frá Brunavörnum Suðurnesja.

Fljótlega var kona færð úr húsinu í járnum í lögreglubifreið sem flutti konuna á lögreglustöðina við Hringbraut. Skömmu síðar fóru sjúkraflutningamenn inn í húsið og komu út með konu á sjúkrabörum. Hún var flutt á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

Sjónarvottur á vettvangi sagði í samtali við Víkurfréttir að skömmu síðar hafi annar einstaklingur verið leiddur út í járnum og að fulltrúar rannsóknardeildar lögreglunnar væru komnir á vettvang.

Fjölmargir vegfarendur fylgdust með á vettvangi, enda viðbúnaður lögreglu mikill og fjöldi lögreglumanna á vettvangi og a.m.k. fjórir merktir lögreglubílar.

Meðfylgjandi myndir voru teknar á vettvangi nú áðan.

VF-myndir: Hilmar Bragi


Einn einstaklingur var fluttur út úr húsnæðinu á sjúkrabörum.


Mikill viðbúnaður var á vettvangi.


Lögreglubifreið ekur á brott með hina handteknu.

Toyota stórsýning 25
Toyota stórsýning 25