Ugla leitaði skjóls við eldhúsglugga í Innri-Njarðvík
Ugla að leita sér skjóls fyrir veðrinu sem hefur gengið á síðustu daga upp við eldhúsgluggann hjá Dagbjörtu Vilhjálmsdóttur, íbúa við Birkidal í Innri Njarðvík í morgun.
„Uglan sat þarna og starði á mig í 2-3 mínútur. Sjálfsagt köld og svöng, hefði sótt handa henni nautahakk hefði hún ekki flogið í burtu,“ sagði Dagbjört í stuttu spjalli við Víkurfréttir.
Uglur eru sjaldséðar á Suðurnesjum en samkvæmt Vísindavefnum er aðeins ein uglutegund sem verpir reglulega hér á landi en það er branduglan (Asio flammeus)
Þar segir einnig:
„Líkurnar á því sjá uglu í Reykjavík eru frekar litlar, enda fljúga fáar uglur yfirleitt þar um. Líkurnar aukast þó umtalsvert ef menn leita eftir þeim á veturna. Á þeim árstíma leita uglur stundum í þéttbýli eftir æti, enda eru þar meiri líkur á bráð en víða annars staðar og gróðurþekja borgarinnar lítil því laufskrúð er í lágmarki. Þéttbýlið laðar enn fremur að uglur og aðra ránfugla þar sem þar safnast saman smáfuglar yfir köldustu mánuði ársins.“