Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Vegagerðin krafin um hundruð milljóna bætur?
Laugardagur 11. janúar 2014 kl. 14:27

Vegagerðin krafin um hundruð milljóna bætur?

Vegagerðin sagði einhliða upp samningi við Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum (SSS) um einkaleyfi á áætlunarferðum flugrútunnar til og frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar sem hefjast áttu nú í ársbyrjun. Stjórn SSS ætlar að bregðast við þessari ólögmætu ákvörðun að þeirra mati og krefjast bóta sem hugsanlega gætu numið hundruðum milljóna króna.

Málið var rætt á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ í vikunni. Samkeppnisstofnun hefur gefið það út að sveitarfélögin myndu hagnast um 500 milljónir króna á einkaleyfi flugrútunnar. Samningur SSS og Vegagerðarinnar var undirritaður í febrúar 2012 en hann fjallar einnig um skipulagningu og umsjón með almenningssamgöngum á Suðurnesjum. Hagnaður af einkaleyfisakstrinum átti í raun að kosta almenningssamgöngur á Suðurnesjum. Síðastliðið haust var undirritaður samningur við SBK um að sjá um aksturinn sem átti að hefja flugrútu-aksturinn í byrjun árs 2014. Samkeppniseftirlitið gerði verulegar athugasemdir við samninginn og sendi ályktun þess efnis í júní á sl. ári. Þar er bent á að samningurinn feli í sér alvarlegar samkeppnishindranir.

Formaður Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum sagði við Morgunblaðið 13. des. sl. að SSS væri í erfiðri stöðu og gæti ekki annað en framfylgt samningi sem það gerði við SBK um aksturinn.

Forráðamenn Kynnisferða sögðu að ef útboðinu yrði framfylgt yrði því mætt af hörku með kæru en fyrirtækið hefur sinn flugrútuakstri milli Keflavíkur og Reykjavíkur í mörg ár. Forráðamenn Allra handa hafa einnig mótmælt þessum gjörningi.

Upphafið að samningi Vegagerðarinnar við Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum má rekja til lok árs 2011 en þá voru samþykkt lög á Alþingi um breytingu á lögum um fólksflutninga hér á landi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024