Til leigu (Skólamatur)
Til leigu (Skólamatur)

Fréttir

Virkar sprengjur á gosstöðvunum geta valdið manntjóni
Mánudagur 26. ágúst 2024 kl. 18:07

Virkar sprengjur á gosstöðvunum geta valdið manntjóni

Virk sprengja hefur fundist nærri gönguleið sunnan Voga og sunnan Reykjanesbrautar við upphaf eldgossins. Var hún sprengd af sprengjusérfræðingum Landhelgisgæslu Íslands.

Svæðið sunnan Voga og Reykjanesbrautar hefur verið sprengjuleitað í gegnum tíðina. Það er þrátt fyrir það mengað af virkum og óvirkum sprengjum sem geta valdið manntjóni ef þær springa en hiti eða hreyfingar geta haft þar áhrif. Staðsetning innan 300 metra frá miðpunkti stórrar sprengju getur valdið manntjóni.

Á svæðinu eru fallbyssukúlur, sprengjuvörpu- (Mortar) og æfingasprengjur.

Það er hins vegar aðeins fyrir sprengjusérfræðinga að meta ástand og gerð þessara sprengna. Þá liggja ekki fyrir nákvæmar upplýsingar um útbreiðslu né stærð þessa svæðis en Landhelgisgæsla Íslands hefur dregið upp neðangreint kort til upplýsingar.

Inn á þessu svæði þurfa viðbragðsaðilar sem aðrir að halda sig við merkta gönguslóða. Vakin er athygli á þessari hættu með skiltum sem staðið hafa við upphaf gönguleiða í áratugi. Það þekkja heimamenn og útivistamenn sem gengið hafa um svæðið.

Nauðsynlegt er að vekja athygli á þessum staðreyndum nú þegar erlendir ferðamenn streyma inn á Reykjanesið til að berja gosið augum. Það eru tilmæli lögreglustjóra til ferðaþjónustuaðila og þeirra sem veita erlendum ferðamönnum upplýsingar að koma þessum staðreyndum á framfæri við ferðamenn. Ferðamenn haldi sig við merktar gönguleiðir og slóða.

Gosstöðvarnar eru ekki aðgengilegar fyrir ferðamenn við núverandi aðstæður. Þá gætir mengunar frá gosi og gróðureldum. Loftgæði nær gosstöðvum eru slæm. Ferðamenn eru ekki allir skynsamir og skunda með börn sín inn á hættuleg svæði. Það skyldu þeir aldrei gera. Skipulögð bílastæði eru ekki fyrir hendi né útsýnisaðstaða. Ökumenn leggi ekki bílum á og við Reykjanesbraut. Við ákveðnar aðstæður getur komið til frekari takmarkana á umferð um Grindavíkurveg.