„Við ætlum að vinna þessa deild“
– segir Gunnar M. Jónsson, þjálfari Keflvíkinga, eftir 4:0 sigur á Völsungi
Keflavíkurstúlkur hafa farið vel af stað í Lengjudeildinni og Mjólkurbikarnum, þær unnu góðan 4:0 útisigur á Völsungi og unnu Aftureldingu 2:0 í bikarnum. Stelpurnar renna norður á Sauðárkrók í kvöld og leika gegn Tindastóli í Lengjudeildinni. Víkurfréttir áttu létt spjall við Gunnar M. Jónsson, þjálfara Keflvíkinga, eftir leik helgarinnar.
– Þið byrjið vel í deild og bikar, heilt yfir hvernig metur þú frammistöðuna í síðasta leik?
Við erum búin að vinna tvo leiki og halda hreinu þannig að þetta lítur vel út. Svo teflum við fram nýjum leikmanni í næsta leik, Paula Germino Watnick. Hún er bandarísk, sóknarmaður og mjög öflugur liðsauki. Við erum búin að vera að bíða eftir leikheimild sem er loksins komin.
– Væntanlega bullandi sjálfstraust í liðinu, þið ætlið ykkur upp er það ekki?
Já, sjálfstraustið er í lagi og við ætlum að vinna þessa deild.
– Þið farið aftur um næstu helgi norður, núna á Sauðárkrók. Hvert er uppleggið fyrir þann leik?
Við förum í alla leiki til að vinna þá svo við ætlum okkur þrjú stig fyrir norðan. Við erum mikið á norðurlandi núna því við drógumst á móti Þór Akureyri í bikarnum.