Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

„Tökum einn leik í einu og mætum í hann alveg brjálaðir“
Keflvíkingar fagna eftir sannfærandi sigur á Stjörnumönnum. Ástbjörn er fremstur á myndinni. VF-myndir: Hilmar Bragi
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 13. maí 2021 kl. 08:25

„Tökum einn leik í einu og mætum í hann alveg brjálaðir“

– segir Ástbjörn Þórðarson sem gekk til liðs við Keflavík fyrir þetta tímabil

Ástbjörn var valinn maður leiksins í 2:0 sigri liðsins á Stjörnunni í Pepsi Max-deildinni síðasta sunnudag þar sem hann sýndi mikinn kraft og baráttuvilja og lagði upp seinna mark Keflvíkinga sem Kian Williams skoraði.

„Framhaldið leggst bara mjög vel í mig,“ segir Ástbjörn Þórðarson sem var valinn maður leiksins í langþráðum sigri Keflvíkinga í efstu deild. „Ég er spenntur fyrir þessu móti. Þetta er góður hópur sem er búinn að taka mjög vel á móti mér og margir orðnir mjög góðir vinir mínir í dag. Það er gott.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ástbjörn er uppalinn KR-ingur en hann ákvað að söðla um og gekk til liðs við Keflavík fyrir þetta tímabil. Ástbjörn hefur fallið vel inn í hóp Keflvíkinga og segir andann í liðinu vera ákaflega góðan og hópinn samstilltan.

„Ég er búinn að vera í KR síðan ég var um fimm ára gamall. Ég náði samt ekki að vinna mig alveg inn í liðin svo mér fannst vera kominn tími á að breyta til og fást við einhverjar aðrar áskoranir. Það kom upp sá möguleiki að koma til Keflavíkur, ég hafði náttúrlega fylgst með þeim og leist vel á það. Ég fór á æfingar með Keflavík og bara small inn í þetta – svo ég ákvað bara að kýla á þetta og taka slaginn með Keflavík.“

– Var ekkert erfitt að kveðja uppeldisfélagið?

„Jú og nei. Auðvitað er það erfitt að kveðja lið sem maður hefur verið í síðan maður var lítill en mér fannst bara vera kominn tími á það. Þetta var sá tímapunktur og mér þótti þetta ekkert erfið ákvörðun.“

– Hefurðu stundað aðrar íþróttir?

„Ég var í körfubolta frá svona sjö til tólf, þrettán ára aldurs og á nú nokkra Íslandsmeistaratitla þar í yngri flokkum. Svo prófaði ég handbolta og eitthvað fleira en ég var aðallega í fótbolta og körfubolta – svo tók fótboltinn bara völdin. Það var í rauninni aldrei nein spurning, ég var í körfuboltanum af því að maður hafði næga orku og gaman af honum. Það var ekkert mál að vera í tveimur íþróttum en svo þegar þær fóru að skarast var engin spurning, fótboltinn var alltaf að fara að vera númer eitt.“

Keflavík er inni í framtíðarmyndinni

– Ástbjörn er 21 árs gamall, ungur og ólofaður, svo það lá beinast við að spyrja hvort keflvísku stelpurnar eigi einhvern séns í hann.

„Þú getur sagt að þær megi alla vega reyna – ekkert er útilokað.“

– Heldurðu að þú eigir eftir að ílengjast hjá Keflavík? Er það í framtíðarmyndinni?

„Já, ég sé það fyrir mér. Við erum með ungt og gott lið sem getur gert fullt af hlutum – og með reynslunni verður það bara enn betra. Ég held að þetta lið geti farið langt.“

– Vissirðu fyrir leik að Keflavík hefði ekki unnið sigur í efstu deild í næstum sex ár?

„Ég vissi að Keflavík hafði ekki unnið leik í langan tíma en við vorum ekkert að hugsa um það. Við erum með leikmenn í liðinu sem hafa þannig hugarfar að þeir vilja vinna og þótt fjölmiðlar hafi verið að tala um það að Keflavík væri ekki búið að vinna í þetta langan tíma þá vorum við ekkert að hlusta á það. Við vitum hvað við getum og það er ekki til neins að vera að velta sér upp úr fortíðinni, við tökum bara einn leik í einu og einbeitum okkur að næsta leik. Við höfum mikla trú á okkur sjálfum.

Þótt einhverjir spekingar séu að spá okkur falli þá hugsum við ekkert um það, við vitum hvað í okkur býr – og við ætlum bara að sýna það. Tökum einn leik í einu og mætum í hann alveg brjálaðir. Ég held að það muni skila okkur árangri.“

Oft skapaðist usli upp við mark Stjörnumanna á sunnudag. Rúnar Þór Sigurgeirsson, Ástbjörn og Nacho Heras átt allir góðan leik með Keflavík í fyrsta sigri þess í efstu deild síðan 3. október 2015..