Átta Íslandsmeistaratitlar
Íslandsmeistaramótið í sundi í 25 metra laug fór fram í Ásvallalaug um síðustu helgi. Sundfólk ÍRB stóð sig gríðarlega vel á mótinu en liðið vann til átta Íslandsmeistaratitla og í heildina til 35 verðlauna. Fjórir sundmenn syntu sig inn í landsliðshópinn fyrir NM og kvennasveit ÍRB sló unglingametið í 4 x 50 metra fjórsundsboðsundi.
Sundfólkið var ekki bara að vinna marga titla heldur voru gæði sundanna mjög mikil á alþjóðlegan mælikvarða. Til marks um mikil gæði þá féllu alls fjörutíu og fjögur innanfélagsmet, það elsta var frá 2001.
Að loknu Íslandsmóti á ÍRB fjóra fulltrúa í landsliði SSÍ sem keppir í desember á Norðurlandamótinu í Bergen. Það eru þau Eva Margrét Falsdóttir, Fannar Snævar Hauksson, Guðmundur Leo Rafnsson og Sunneva Bergmann Ásbjörnsdóttir.