Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Betri í táknmáli en í frönsku
Laugardagur 27. október 2018 kl. 00:00

Betri í táknmáli en í frönsku

– Elvar Már frá ströndum Miami í harðan heim atvinnumennsku í Evrópu

Í sumar samdi Njarðvíkingurinn Elvar Már Friðriksson við franska B-deildarliðið Denain Voltaire. Tvær umferðir eru búnar í deildinni og Elvar er að venjast nýju hlutverki sem atvinnumaður í sterkri deild. Hann var fjögur ár í Barry-háskólanum í Miami þar sem hann var eins og kóngur í ríki sínu. Elvar er að spila um 18 mínútur í leik en hann gerir ráð fyrir tíma til þess að aðlagast. „Ég er að vonast til að fara að skora meira en það á eftir að koma með tímanum meðan maður er að venjast og öðlast sjálfstraust,“ en Elvar er með 3,5 stig í leik og á enn eftir að skora þriggja stiga körfu.

„Þetta lið gerði mér eitt af fyrstu tilboðunum. Þjálfarinn er að byggja upp ungt og spennandi lið og ég fékk gott tilboð og stökk á það. Það eru ekki mikið af liðum í þessari deild sem fá til sín nýliða beint úr háskóla í atvinnumennsku. Ef ég stend mig vel þá er þetta hugsanlega góður stökkpallur,“ segir Njarðvíkingurinn sem býr á frekar framandi slóðum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Ég er örugglega orðinn betri í táknmáli en frönsku,“ segir bakvörðurinn léttur í bragði. Hann segist finna meira fyrir heimþrá en áður en nú reynir á að halda sér við efnið. Hann er vanur því að hafa nóg fyrir stafni á meðan hann stundaði háskólanám í Miami og spilaði körfubolta. Elvar reynir að æfa mikið en hann er búinn að dvelja úti í einn og hálfan mánuð. Denain er lítill bær steinsnar frá Lille í Frakklandi og við landamærin hjá Brussel í Belgíu. Eftir æfingu á hann það til að taka rúnt í þessar borgir og njóta lífsins í mið-Evrópu. Kristófer Acox fyrrum leikmaður KR er samherji Elvars. Það hefur auðveldað þeim báðum lífið að vera hjá sama liði.

Kemst ekki að í öllum leikjum

Elvar hefur oft verið meira með boltann í höndunum en bíður þolinmóður eftir því sem býðst, hann þarf að nýta sín skot vel enda af skornum skammti miðað við það sem hann er vanur. „Ég er ekki að búast við því á fyrsta ári mínu í atvinnumennsku að geta ýtt bara öllum öðrum til hliðar bara til þess að þóknast sjálfum mér. Þetta er þolinmæðisvinna og tekur klárlega á hausinn,“ Elvar segist hafa verið passívur og ekki verið að reyna of mikið meðan hann aðlagast. „Það er erfitt að vera stöðugur þegar það eru tíu atvinnumenn með þér í liði sem vilja skila sínum tölum. Maður kemst ekki að í öllum leikjum.“ Elvar á marga að sem leikið hafa sem atvinnumenn í Evrópu. Hann hefur leitað ráða hjá mörgum þeirra en gjarnan sækir hann í reynslubanka Harðar Axels Keflvíkings.

„Ég hef mikið leitað til Harðar, sérstaklega með andlega þáttinn. Það er gott að hafa hann til að spjalla við. Hann hefur upplifað nánast allt í atvinnumennsku. Hann hefur bent mér á að njóta þess að vera þarna, halda í gleðina. Þetta getur verið erfitt oft á tíðum.“ Fjölskyldan og kærastan eru dugleg að koma í heimsókn eins sem tæknin auðveldar samskiptin.

Var aldrei á leið heim

Aldrei stóð til að spila á Íslandi strax eftir háskólanám. „Nei það var ekki inni í myndinni. Það hefur alltaf verið markmið mitt að klára fjögur ár í háskóla og nýta það til að komast á sem bestan stað í Evrópu. Körfuboltinn er bara í ákveðið mörg ár og ég vildi fara þessa leið á meðan ég get verið úti.“

Dvölin var góð í Miami í Barry-háskólanum og Elvar kvaddi skólann með söknuði. „Ég sakna þess mikið að vera þar, þetta var einn besti staður sem ég hef verið á, með fullri virðingu fyrir Njarðvík,“ segir Elvar og hlær. Hann hefur aldei spilað betri körfubolta en einmitt í Barry þar sem hann sló hvert metið á fætur öðru. „Maður er alltaf að hugsa um næsta skref en gleymir því að vera í núinu. Þegar svo kom að því að fara þaðan var ég frekar dapur yfir því að vera fara frá Miami. Það var einstök upplifun að vera þarna og ég er mjög glaður að hafa klárað þessi fjögur ár í Barry,“ segir Elvar frá Frakkalandi.