Einar hættir hjá Keflavík eftir 30 ár – Björg nýr formaður
Traustur rekstur hjá félaginu undanfarin ár | Birgir Már Bragason tekur við sem framkvæmdastjóri
Það var sannkallaður tímamótaaðalfundur hjá Keflavík, íþrótta- og ungmennafélagi, sem haldinn var síðastliðinn mánudag en það fagnar 95 ára starfi á þessu ári. Ungmennafélag Keflavíkur var stofnað árið 1929 en Keflavík er fertugt félag, það varð til með sameiningu UMFK og KFK (Knattspyrnufélags Keflavíkur) árið 1994. Einar Haraldsson, formaður og framkvæmdastjóri til þrjátíu ára, er að láta af störfum og embætti. Björg Hafsteinsdóttir, ein af körfuboltadætrum Keflavíkur, var kjörin formaður og nýr framkvæmdastjóri var einnig kynntur til leiks á aðalfundinum en við því starfi tekur Birgir Már Bragason.
„Þetta er orðið fínt en búið að vera sérlega skemmtilegt og ánægjulegt. Það skemmir heldur ekki að félagið stendur vel rekstrarlega séð og líka félagslega sem sýndi sig kannski á fjölmennum aðalfundi,“ sagði Einar Haraldsson eftir aðalfundinn í félagsheimili Keflavíkur.
Það er hægt að taka undir orð fráfarandi forystumanns en rekstur Keflavíkur stendur traustum fótum og reksturinn skilaði átta milljóna króna hagnaði og við það bættust um sex milljónir króna í vaxtatekjur og því heildarafkoma um fjórtán milljónir í plús. Staðan er þó misjöfn hjá deildum félagsins.
Björg Hafsteinsdóttir sagði í fyrstu ræðu sinni sem formaður Keflavíkur að hún hafi alla tíð verið mikill Keflvíkingur og hún hlakkaði til komandi tíma sem væru bjartir hjá félaginu.
Einar fékk margar viðurkenningar, m.a. frá Ungmennafélagi Íslands, bæjarstjórn Reykjanesbæjar, stjórn félagsins og hans helstu samstarfsaðilum innan Reykjanesbæjar. Einar þakkaði fyrir sig og var klökkur. „Mér er bara orða vant en afar þakklátur,“ sagði fráfarandi formaður og framkvæmdastjóri.
Birgir Már hefur verið viðloðandi félagið í langan tíma og tekur við sem nýr framkvæmdastjóri 15. apríl. Tveir aðrir starfsmenn eru hjá Keflavík, Hjördís Baldursdóttir, íþróttastjóri, og nýlega var þriðji starfsmaðurinn ráðinn en það er Guðbjörg Björnsdóttir og sinnir hún fjármála- og skrifstofustjórn.
Nýir aðilar í aðalstjórn Keflavíkur voru kosnir þeir Stefán Guðjónsson og Þröstur Leó Jóhannsson. Með þeim eru, auk Bjargar, þau Eva Björk Sveinsdóttir, Garðar Newman, Jónína S. Helgadóttir, Sveinbjörg Sigurðardóttir og Garðar Örn Arnarson.
Fjölmargar viðurkenningar voru veittar á aðalfundinum:
Fleiri myndir frá aðalfundinum eru í myndasafni neðst á síðunni.