Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Fyrsta tapið hjá Njarðvík – Ótrúlegur sigur Víðismanna
Njarðvík gekk illa upp við mark andstæðinganna í gær. Myndir úr safni VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 7. júní 2024 kl. 07:37

Fyrsta tapið hjá Njarðvík – Ótrúlegur sigur Víðismanna

Það er óhætt að segja að fótboltinn sé óvægin íþrótt eins og sannaðist í leikjum Suðurnesjaliðanna Njarðvíkur og Víðis í gær. Njarðvík tapaði sínum fyrsta leik á tímabilinu í uppgjöri tveggja efstu liða Lengjudeildar karla en Víðir vann ótrúlegan endurkomusigur á KFK.

Fjölnir - Njarðvík 4:2

Njarðvíkingar litu gríðarlega vel út í upphafi leiks og lengi framan af. Þeir höfðu undirtökin í leiknum, sóttu stíft og má segja að Fjölnir hafi verið í nauðvörn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það var því gegn gangi leiksins þegar Fjölnir komst yfir eftir vel útfærða skyndisókn (24').

Njarðvík tókst á við mótlætið og hélt áfram að sækja og pressa á heimamenn. Á 36. mínútu tók Njarðvík langt innkast inn að markteig Fjölnis sem var skallað frá en boltinn féll fyrir fætur Freysteins Inga Guðnasonar inni í teignum, Freysteinn reyndi skoti að marki Fjölnis sem barst af varnarmanni til Kenneth Hogg sem jafnaði leikinn af stuttu færi (36').

Það tók Fjölni ekki langan tíma að ná forystu á nýjan leik þegar heimamenn fengu aukaspyrnu úti við hliðarlínuna vinstra megin. Aukaspyrnan var vel tekin á fjærstöng þar sem Njarðvíkingum tókst ekki að hreinsa frá, boltinn féll fyrir fætur sóknarmanns sem hitti hann illa en endaði fyrir framan autt mark Njarðvíkinga þar sem óvaldaður heimamaður þakkaði fyrir sig með marki (40').

Fjölnismenn juku forystuna áður en fyrri hálfleikur var allur þegar þeir sóttu hratt upp vinstra megin, sóknarmaður keyrði inn í teig Njarðvíkur og sendi á fjærstöng þar sem Fjölnismaður kom á ferðinni og skoraði þriðja mark heimamanna (43').

Seinni hálfleikur fór af stað eins og sá fyrri. Njarðvíkingar stjórnuðu för og sóttu en ein kæruleysisleg sending til baka gerði út um leikinn. Fjölnismaður komst inn í sendinguna á miðjum vallarhelmingi Njarðvíkur og lét vaða af löngu færi yfir Aron Snæ Friðriksson, markvörð Njarðvíkinga, sem var staðsettur framarlega.

Þó Kaj Leo Bartalstovu hafi skorað í lokin (90') þá slökkti fjórða mark Fjölnis neistann í Njarðvíkingum sem töpuðu þar fyrsta leiknum á tímabilinu.

Vörn Njarðvíkur hefur átt betri daga og sama má segja um sóknina en fremstu mönnum gekk illa að nýta þau færi sem þeir fengu.

Njarðvík fór í annað sæti Lengjudeildarinnar við þessi úrslit og misstu Fjölni einu stigi upp fyrir sig.

Hægt er að horfa á leikinn í spilaranum fyrir neðan fréttina.


KFK - Víðir 2:3

Það er rétt að ítreka að fótboltinn er óvægin íþrótt og í gær féllu úrslitin í leik Víðis og KFK á hreint ótrúlegan hátt með Víðismönnum í þriðju deildinni.

Víðismenn unnu KFK í undanúrslitum Fótbolti.net-bikarsins í fyrra.

Víðismenn lentu tveimur mörkum undir (20' og 46') og þannig stóðu leikar þegar venjulegum leiktíma lauk en leikurinn er ekki búinn fyrr en dómarinn blæs hann af og þrjú mörk Víðis í uppbótartíma (Einar Örn Andrésson 90'+3 og 90'+4, Daniel Beneitez Fidalgo 90'+6) tryggðu þeim magnaðan sigur.

Víðir er í öðru sæti þriðju deildar en sjöttu umferð er ekki lokið.

Fjölnir - Njarðvík 4:2