Fyrsti sigur Grindvíkinga en tap hjá Keflavík og Njarðvík
Grindavík náði að brjóta ísinn og vinna fyrsta sigurinn eftir þrjú töp í byrjun Subway-deildar karla í körfuknattleik. Eitthvað gæti framlengdur bikarslagur Njarðvíkur og Keflavíkur hafa setið í leikmönnum liðanna því Njarðvíkingar töpuðu á sama tíma sínum fyrsta leik þegar þeir mættu Álftnesingum á útivelli og Keflavík mátti þola tap fyrir Stjörnunni í Garðabæ.
Grindavík - Breiðablik 115:85
Þrátt fyrir stórsigur fóru Grindvíkingar sér hægt í sakirnar í byrjun leiks og áttu einungis eitt stig á gestina eftir fyrsta leikhluta (26:25). Allt var í járnum þar til um miðjan annan leikhluta, í stöðunni 35:35, að heimamenn settu í fluggírinn og fóru með fimmtán stig í farteskinu inn í hálfleikinn (59:44).
Fyrirliði Grindvíkinga, Ólafur Ólafsson, meiddist undir lok fyrri hálfleiks þegar hann lenti illa eftir að hafa komist inn í sendingu Blika. Grindvíkingar létu fjarveru fyrirliðans ekki á sig fá og léku á alls oddi í þriðja leikhluta og komust þrjátíu stigum fram úr gestunum (84:54) en staðan var 87:62 í lok leikhlutans.
Blikar voru bugaðir og heimamenn gátu leyft sér að hvíla lykilmenn í fjórða leikhluta. Reynsluminni leikmenn sýndu þó að nokkuð er í þá spunnið og Grindavík jók áfram muninn. Stuðningsmenn kunnu vel að meta framlag sinna manna í kvöld og var stemmningin í höllinni frábær. Að lokum var fyrsta sigrinum í Subway-deildinni fagnað vel og innilega, þrjátíu stiga stórsigur.
Deadrick Basile var stigahæstur heimamanna með 33 stig en næstur kom Deandre Kane með nítján, Valur Orri Valsson sextán, Arnór Helgason ellefu, Ólafur Ólafsson átta, Magnús Engill Valgeirsson og Daniel Mortensen með sjö stig hvor, Alexander Veigar Þorvaldsson sex og Jón Stefánsson tvö stig.
Álftanes - Njarðvík 90:79
Njarðvíkingar mættu ósigraðir í deildinni á Álftanesið í kvöld en líklega hafa leikmenn ekki alveg verið búnir að ná sér, líkamlega og andlega, eftir bikarslaginn við Keflavík.
Eftir jafnan fyrsta leikhluta (22:22) fór að síga á ógæfuhliðina hjá Njarðvík. Annar leikhluti var á valdi heimamanna sem náðu að byggja upp ellefu stiga forystu (48:37).
Njarðvíkingar voru þó ekki dauðir úr öllum æðum og náðu muninum niður í þrjú stig þegar Elías Pálsson setti niður þrist upp úr miðjum þriðja leikhluta (55:52). Álftanesingar voru þó ekki tilbúnir að gefa eftir og juku forskotið á nýjan leik. Staðan fyrir fjórða leikhluta 67:58.
Aftur kom ágætis áhlaup hjá þeim grænklæddu og þeir náðu muninum niður í fjögur stig (89:85) en lengra komust þeir ekki. Álftanes hafði að lokum ellefu stiga sigur og urðu því fyrsta liðið til að vinna Njarðvík.
Chaz Williams og Mario Matasovic voru atkvæðamestir Njarðvíkinga, Williams með 23 stig og Matasovic með 21. Þá kom Luke Moyer með tólf stig af bekknum, Elías Pálsson og Carlos Novar Mateo voru með níu stig hvor og að lokum Domynikas Milka með fimm stig.
Stjarnan - Keflavík 87:81
Í leik Keflavíkur og Stjörnunnar var allt jafnt eftir fyrsta leikhluta (26:26) en Keflvíkingar hófu annan leikhluta vel og náðu snemma ellefu stiga forystu (28:39). Þeir héldu áfram að auka muninn og staðan í hálfeik 38:54, sextán stiga munur.
Stjarnan minnkaði muninn í ellefu stig í þriðja leikhluta (60:71) en í fjórða leikhluta var eins og allur vindur væri úr Keflvíkingum. Stjörnumenn skoruðu fjórtán stig gegn fjórum í byrjun leikhlutans og skyndilega var munurinn aðeins eitt stig (74:75).
Heimamenn gengu á lagið og tóku fram úr gestunum og unnu að lokum með sex stigum.
Remy Martin var með 29 stig, Jaka Brodnik tuttugu stig, Sigurður Pétursson tíu, Urban Oman og Marek Dolezaj níu stig hvor, þá voru þeir Halldór Garðar Hermannson og Igor Maric með sitt hvor tvö stigin.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, íþróttafréttaritari Víkurfrétta, ræddi við Val Orra Valsson eftir stórsigur Grindavíkur á Blikum og tók myndir sem má sjá neðst á síðunni.