Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Grindvíkingar slógu Val út á Hlíðarenda – Keflavík úr leik
Óskar Örn Hauksson skoraði magnað mark frá miðju. Myndir úr safni Víkurfrétta/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 18. maí 2023 kl. 16:07

Grindvíkingar slógu Val út á Hlíðarenda – Keflavík úr leik

Grindvíkingar gerðu sér lítið fyrir og slógu úrvalsdeildarlið Vals út úr Mjólkurbikar karla í knattspyrnu þegar í dag með 3:1 sigri á Hlíðarenda. Vængbrotið lið Keflavíkur féll úr keppni eftir 4:0 tap fyrir Stjörnunni.

Fyrsti hálftíminn var frekar tíðindalítill þar sem hvorugu liði tókst að skapa sér almennileg færi – en á 32. mínútu braust Viktor Guðberg Hauksson í gegnum vörn Valsmanna og náði skoti að marki sem markvörður heimamanna var nálægt að verja. Boltinn hafnaði í netinu og skyndilega voru Grindvíkingar komnir í forystu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Grindvíkingar voru hvergi hættir og áður en fyrri hálfleikur var allur hafði Bjarki Aðalsteinsson tvöfaldað forystuna með skallamarki eftir hornspyrnu (40').

Valsarar virtust ráðvilltir enda ekki í þeirr stöðu sem þeir bjuggust við. Þeir reyndu þó að klóra í bakkann og voru nærri því að minnka muninn þegar þeir fengu hornspyrnu í uppbótartíma fyrri hálfleiks en skalli þeirra hafnaði í slánni. Staðan því 0:2 í hálfleik fyrir Grindavík.

Vörn Grindvíkinga var vel skipulögð og gerði engin mistök. Seinni hálfleikur rúllaði áfram án þess að Valur næði að byggja upp hættulegar sóknir þótt þeir væru meira með boltann.

Það var svo Óskar Örn Hauksson sem rak síðasta naglann í kistu Valsmanna þegar hann var með boltann á eigin vallarhelmingi, lék á einn Valsarar og lét svo vaða frá miðju. Boltinn sveif yfir varnarlausan markvörð Vals sem var staðsettur of framarlega til að eiga séns á að verja (74'). Grindavík komið með þriggja marka forystu og langt liðið á síðari hálfleik.

Valur minnkaði muninn í uppbótartíma og lokatölur urðu 1:3 fyrir Grindavík sem fer áfram í átta liða úrslit.

Stuðningsmenn Grindavíkur hafa yfir miklu að gleðjast.

Keflvíkingar töpuðu stórt í Garðabæ og ljúka sinni þátttöku í bikarnum

Keflavík þurfti að gera fjölmargar breytingar á byrjunarliði sínum frá síðasta leik en meiðslavandræði herja á Keflavík og er að verða stórt vandamál hjá félaginu.

Stjörnumenn komust yfir eftir vandræðagang í vörn Keflavíkur. Sóknarmaður Stjörnunnar vann þá boltann af Daníel Gylfasyni sem lék í bakverðinum, gaf fyrir og Mathias Rosenörn varði skot Stjörnumanns en heimamenn náðu að koma boltanum yfir marklínuna (16').

Fimm mínútum fyrir leikhlé sótti Stjarnan upp og sendi bolta fyrir markið. Þar reyndi Gunnlaugur Fannar Guðmundsson að hreinsa frá en tókst ekki betur til en svo að boltinn hafnaði í eigin marki (40').

Stjarnan gerði endanlega út um leikinn með tveimur mörkum í seinni hálfleik (65' og 81') en Keflavík var aldrei líklegt til að vinna upp forskotið.

Fyrirliðnn Magnús Þór Magnússon var ekki í hópnum í dag en hann er einn þeirra Keflvíkinga sem hafa verið að glíma við meiðsli.