Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Gulldrengirnir úr Garðinum
Liðið sem sigraði Njarðvík og tryggði sætið í efstu deild haustið 1984.
Föstudagur 25. desember 2015 kl. 06:26

Gulldrengirnir úr Garðinum

Víðismenn léku í efstu deild fyrir 30 árum

Fyrir þrjátíu árum komust Víðismenn upp í efstu deild karla í knattspyrnu. Félagið var nánast eingöngu skipað heimamönnum sem æfðu á túninu við Garðskaga og spiluðu á malarvelli. Víðismenn léku í þrjú ár samfleytt í efstu deild, fjögur ár alls, og komust í sjálfan bikarúrslitaleikinn árið 1987. Það er ekki hægt annað en að tala um rómantík og öskubuskusögu þegar afrek Víðispilta eru rifjuð upp á þessum tíma. Með frábærum anda og eljusemi tókst þeim að komast í röð þeirra bestu.

Guðjón Guðmundsson var fyrirliði liðsins á þessum árum en hann lék á miðjunni. Hann var mikill leiðtogi á velli og kraftmikill leikmaður sem spilaði stóra rullu í uppgangi félagsins, Hann rifjar þessa tíma upp með bros á vör og lygnir aftur augunum. Það er augljóst að hann á hlýjar minningar úr boltanum. Hann gantast og kallar úrklippubækurnar montbækur þegar hann flettir í gegnum þær og segir blaðamanni frá einstaka leikjum og afrekum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Strákar sem voru tilbúnir að leggja á sig

Af hverju verða svona margir góðir leikmenn til á sama tíma þarna í Garðinum?
„Síður en svo er það aðstöðunni að þakka. Ætli það sé ekki áhuginn á þessari blessuðu íþrótt. Þegar Eggert Jóhannsson kemur til okkar í kringum 1980 þá kemur hann með þetta rosalega æfingaálag með sér. Hann tekur í raun við keflinu af Sigurði Ingvarssyni sem sem hafði alið upp marga af þessum strákum sem voru að koma upp á þessum tíma. Eggert breytti viðhorfinu hjá okkur. Þarna koma bara margir strákar upp sem voru tilbúnir að leggja á sig. Við náðum þó ekki að komast langt undir hans stjórn og það var ekki fyrr en Haukur Hafsteins kom til okkar frá Keflavík árið 1982 sem árangur náðist. Hann kenndi okkur fótbolta. Þ.e.a.s. skipulag og varnarleik. Við flutum áfram á þessu sem hann kenndi okkur alveg öll þessi ár, það er bara staðreynd. Við fórum strax upp um deild með Hauki og vorum því komnir í næst efstu deild. Haukur fór þá yfir til Keflavíkur og ég fór nánast með honum. Ég fékk einhverja bakþanka og hætti við,“ segir Guðjón þegar hann rifjar upp upphafið að þessu öllu saman. „Við vorum bara þrælgóðir ef ég á að segja eins og er. Við náðum þeim góða árangri að spila 18 leiki, fengum 27 stig með markatöluna 14-12. Þá fóru allir leikir 1-0 eða 0-0,“ segir Guðjón og hlær. Það dugði þeim í þriðja sæti og ekki fóru þeir í efstu deild það árið. „Þegar við lékum undir stjórn Hauks árið 1983 þá höfðum við getuna en höfðum ekki trú á þessu,“ bætir Guðjón við. Fótboltinn var eina íþróttin sem stunduð var í Garðinum á þessum tíma og mikill metnaður var lagður í starfið í kringum félagið. Það skýrir líklega að einhverju leyti þennan mikla uppgang. Liðið lék lengst af í 3. deild þar til árið 1982 að liðið vann sér sæti í 2. deild. Liðið náði 3.-4. sæti í deildinni árið 1983 og var grátlega nærri því að koma sér upp í 1. og efstu deild.

Í deild þeirra bestu

Framarinn og landsliðsmaðurinn Marteinn Geirsson tók við liðinu í næst efstu deild árið 1984 og kom því upp á meðal þeirra bestu á sínu fyrsta ári sem þjálfari. Hann lék einnig með liðinu. Liðið var í toppbaráttu allt tímabilið og það var allt undir þegar liðið mætti grönnum sínum frá Njarðvík í síðustu umferð. Víðismenn höfðu 2-1 sigur á heimavelli sínum. Þeir Klemenz Sæmundsson og Guðmundur Knútsson skoruðu fyrir Víði.

Spilað á mölinni og úti á skaga

Heimavöllurinn var úti við Garðskaga á þessum tíma, í námunda við þar sem æfingasvæðið hjá liðinu er núna. „Þarna var engin aðstaða. Ekki einu sinni eitt klósett. Þarna lékum við þrjá leiki í efstu deild við engin smá lið eins og Fram og Keflavík. Á þessum leikjum voru að mig minnir um 1500 manns. Maggi Gísla heitinn skrifaði í DV að fleiri áhorfendur hefðu verið á leiknum en byggju í Garðinum,“ segir Guðjón. Það stendur heima. Magnús ritaði í DV árið 1985 að íbúar í Garðinum hafi verið þá 1028 en um 1500 manns hafi mætt á leik liðsins gegn Keflavík út við Garðskagavita. Að meðaltali mættu um 650 á leiki hjá Víðismönnum það árið. Fyrsti leikurinn í efstu deild var gegn FH á malarvellinum sáluga en Hafnfirðingar sigruðu þar 0-1 í hátíðarstemmningu. Svo var gefin undanþága fyrir því að fara út á Garðskaga og spila á grasbalanum þar fremur en á mölinni. Skömmu áður hafði verið hafist handa við að leggja nýjan völl sem var tekinn í notkun seinna um sumarið 1985. Það er völlurinn sem leikið er á enn þann dag í dag. „Ég er þó ansi hræddur um að við fengjum ekki að spila í efstu deild þar í dag, eflaust þyrfti að bæta aðstöðuna enn frekar,“ segir Guðjón og hlær.

Nánast bara heimamenn

Eins og áður segir var liðið bara skipað ungum uppöldum leikmönnum. „Ef ég er mjög grófur, ég veit að Óli Róberts verður ekki of ánægður með mig, ef ég tek hann ekki sem Garðmann á þeim tíma þó hann sé það vissulega í dag. Þá vorum við allir Garðbúar fyrir utan hann og Martein Geirsson sem fórum upp í efstu deild. Þegar við fórum svo upp þá bættust við Gísli Eyjólfsson frá Keflavík (Garðmaður) Einar Ásbjörn og Rúnar Georgsson sem eru Keflvíkingar. Það varð allt vitlaust þegar þeir komu yfir. Það var mikið skrifað um þetta á sínum tíma í Víkurfréttum ef ég man rétt.“

Stórslys að þeir hafi haldið sér uppi

Víðismenn héldu sér naumlega uppi fyrsta árið og réðust úrslitin í fallbaráttunni ekki fyrr en í síðustu umferð. Guðjón man vel eftir því að þetta var talið þokkalegt afrek á sínum tíma þó margir hafi ekki haft hátt um það. „Ég lenti einu sinni á tali við nokkra stjórnarmenn Framara. Þar hafði einn á orði að það hefði verið slys að Víðismenn hafi farið upp í efstu deild, en það hafi verið stórslys að þeir hafi haldið sér þar uppi. Svo mega menn túlka þetta hvernig sem þeir vilja, hvort hann hafi verið að gera lítið úr okkur eða að upphefja okkur. Líklega var hann að gera bæði.“ Eins sagði Ellert Schram formaður KSÍ á þeim tíma, að þessi árangur Víðismanna væri ekki ósvipaður því að Ísland kæmist á stórmót í knattspyrnu, sem þótti óhugsandi árið 1984.
Liðið var ungt og öflugt. Þegar liðið fór upp í efstu deild þá var Guðjón 24 ára og var hann þá þriðji elstur í liðinu, elsti maðurinn var 27 ára. Þetta voru bara einn og tveir strákar úr hverjum árgangi og þessir leikmenn voru kjarninn í þessu svokallaða gullaldarliði Víðis.
Árið 1986 kemur Kjartan Másson til sögunnar og þjálfar liðið. „Þá vorum við aldrei í botnbaráttu. Við töpuðum nokkrum leikjum undir lokin en höfnuðum í 7. sæti,“ en það er besti árangur liðsins frá upphafi.

Sigur á Valsmönnum á leið á Laugardalsvöll 1987.

Leiðin á Laugardalsvöll

Víðsmenn héldu sér uppi tvö fyrstu árin, tímabilið 1985 og 1986. Svo kemur tímabilið 1987 þar sem Víðsmenn koma landsmönnum öllum algjörlega á óvart. Þá var Haukur Hafsteins kominn aftur við stjórnvölinn. Þá hófst bikarævintýri sem rennur Garðbúum, sem komnir eru á besta aldur, seint úr minni. Fyrst lá leiðin á Neskaupsstað þar sem Þróttarar voru til viðureignar. Garðbúarnir úr efstu deild voru nokkuð sigurvissir en þurftu að knýja fram sigur með framlengingu. Næstir í röðinni voru svo KR-ingar. „Það var bara nokkuð sannfærandi sigur gegn KR,“ rifjar Guðjón upp en Víðsmenn unnu 2-0 sigur á efsta liði deildarinnar með mörkum frá Hlíðari Sæmundssyni og Grétari Einarssyni.

Valsmenn voru næstu fórnarlömb. Þeir voru Íslandsmeistarar á þessum tíma og með gríðarlega öflugt lið. Þeir pressuðu Víðismenn stíft allan leikinn en þeir náðu að hanga á sigri eftir að Vilberg Þorvaldsson hafði skorað eina mark leiksins.

Enn eitt stórveldið var á vegi Víðismanna - en nú voru það Framarar í sjálfum úrslitaleiknum. „Að mínu mati voru þeir með langbesta lið landsins á þessum tíma. Pétur Ormslev var þarna upp á sitt besta. Pétur Arnþórs, Guðmundur Steinsson og Keflvíkingurinn Ragnar Margeirsson voru meðal lykilmanna.“ Fram vann leikinn 5-0 og áttu Víðismenn aldrei möguleika. Guðjón segir að þeir hafi hreinlega farið á taugum. Mun þetta vera stærsta tap í sögu bikarúrslitanna en Guðjón vill síður rifja það upp.

Liðið sem fór upp árið 1990.

„Jafn skart niður og við fórum upp“

Eftir bikarúrslitin féllu Víðismenn loks niður um deild. Það mátti engu muna en það var aðeins markatalan sem felldi Garðbúana. Þeir þurftu að vinna KR með þriggja marka mun í síðustu umferð en unnu aðeins 2-0. „Við vorum bölvaðir klaufar að skora ekki þriðja markið því við vorum miklu betri í þessum leik. Hann hefði hæglega getað endað 6-0.“

Árið 1990 komu Víðismenn aftur upp í efstu deild með látum. Þeir slógu stigamet í 2. deild og skildu m.a. Keflvíkinga eftir í næstefstu deild. Stigametið lifði að vísu ekki lengi þar sem Skagamenn, með þá tvíburabræður Arnar og Bjarka í fararbroddi, slógu þeim við ári eftir. „Það var ofboðslega gaman þarna í 2. deildinni þegar við fórum upp. Sjálfstraustið var alveg í botni og maður sá hvað það hefur mikil áhrif, flytur fjöll alveg hreint.“

Seinna skiptið í efstu deild þá hrundi botninn úr þessu hjá Garðbúum. „Ég held að við höfum verið orðnir þreyttir hver á öðrum. Ég upplifði það þannig. Þetta hrundi hálfpartinn og við féllum með stæl. Árið eftir féllum við svo aftur um deild og því má segja að við höfum farið jafn skart niður og við fórum upp,“ segir Guðjón og hlær.

„Það er ofboðslega ljúft að rifja þetta upp og gaman hvað strákarnir muna mikið eftir þessu,“ segir Guðjón en liðið hefur hist nokkrum sinnum og haldið upp á það þegar áfanginn náðist árið 1984. Hann segir að það sé þó orðið langt síðan síðast. „Þetta gaf okkur alveg helling, Við vorum saman alveg í áratug þessir strákar og það var mjög gaman. Við skemmtum okkur mikið saman. Þetta hefði aldrei dugað svona lengi ef hópurinn hefði ekki verið svona góður.“

Það er athyglisvert að nokkrir þessara leikmanna léku enga leiki í yngri flokkum m.a. Guðjón og Daníel Einarsson sem aldrei léku með yngri flokkum Víðis á Íslandsmóti. „Ég fékk að fara á æfingar með meistaraflokki 14 ára gamall. Annars var það bara bolti á túnum þar sem við spiluðum út í eitt. Jafnan var farið og spilað á móti strákum í Vesturbænum í Keflavík á túnum þar sem Grófin er núna,“ segir Guðjón.

Það er líka áhugavert að hugsa til þess að bestu leikmenn Víðismanna frá upphafi voru ekki hluti af þessum liði. Jóhann Birnir Guðmundsson hóf ferilinn með Víði áður en hann fór til Keflavíkur og síðar í atvinnumennsku. Guðjón Árni Antoníusson hefur svo átt mjög farsælan feril í úrvalsdeild.

Silfurtúns bræður

Bræðurnir Grétar, Halldór, Vilhjálmur og Daníel Einarssynir léku allir með liðinu þegar það fór upp í efstu deild. Reyndar voru þeir sex talsins bræðurnir sem léku með meistaraflokki nokkrum árum áður en þá voru þeir Snorri og Þorsteinn einnig í hópnum. Það hlýtur að vera einsdæmi að svo margir bræður leiki með einu og sama liðinu í nokkurri hópíþrótt hérlendis. „Ég held að það sé á engan hallað að segja að Grétar Einars hafi verið hæfileikaríkastur í þessum hópi. Grétar var okkar aðal ás. Svo var Danni þarna helvíti öflugur og Villi líka. Annars var þetta gríðarlega sterk liðsheild,“ segir fyrirliðinn fyrrum, Guðjón Guðmundsson.

Víðir Sigurðsson höfundur bókanna Íslensk knattspyrna, allt frá árinu 1983, telur afrek Víðsmanna vera meðal þeirra merkustu í íslenskri knattspyrnusögu:

Einstakt hjá Víði

„Ævintýri Víðismanna á níunda áratug síðustu aldar var einstakt á þeim tíma því þeir voru fyrsta liðið sem hafði verið venjulegt 3. deildarlið frá stofnun sem fór upp í efstu deild. Þeir gerðu meira en að fara upp því þvert ofan í allar spár voru þeir í þrjú ár samfleytt í efstu deild, fjögur ár alls, og komust í bikarúrslitaleik sem þýddi að þeir voru einum leik frá Evrópukeppni. Nú eru liðnir þrír áratugir frá þessum gullárum Víðismanna en það er fyllsta ástæða til þess að halda árangri þeirra á þessum tíma á lofti.

Þetta gerðu þeir með öflugum kjarna af heimamönnum sem ég kynntist sjálfur með því að spila nokkrum sinnum á móti þeim á þessum árum og Garðurinn komst þarna á Íslandskortið með eftirminnilegum hætti. Afrekið hjá þessu litla en öfluga félagi, sem náði að vera sjöunda besta lið landsins árið 1986 er meira en margir átta sig á. Þetta var gert með dugnaði, fórnfýsi og harðfylgi þessara stráka sem voru tilbúnir til að leggja á sig það sem þurfti. Um leið held ég að þeir hafi vakið mörg önnur minni félag til vitundar um að það væri hægt að komast í hóp „stóru liðanna,“ enda áttu fleiri lið eftir að fylgja í kjölfarið á næstu árum, eins og Grindavík, Fylkir, Leiftur og Skallagrímur, svo einhver séu nefnd,“ segir Víðir í samtali við Víkurfréttir.

Eftirtaldir leikmenn skipuðu hópinn fyrsta sumarið í efstu deild árið 1985, en það er skemmtilegt að sjá hvernig þetta var sett upp í DV á sínum tíma með starfsheitum leikmanna:

Gísli Heiðarsson, 20 ára verslunarmaður, markvörður.
Sævar Júlíusson, 25 ára trésmiður, markvörður.
Helgi Sigurbjörnsson, 22 ára verkamaður, varnarmaður.
Gísli M. Eyjólfsson, 30 ára sölustjóri, varnarmaður.
Sigurður Magnússon, 24 ára trésmiður, varnarmaður.
Ólafur Róbertsson, 22 ára rafvirki, varnarmaður.
Rúnar Georgsson, 21 árs verslunarmaður, varnarmaður.
Hjörtur Davíðsson, 19 ára verkamaður, varnarmaður.
Halldór Einarsson, 27 ára verkamaður, varnarmaður.
Guðjón Guðmundsson, 25 ára trésmiður, tengiliður og fyrirliði liðsins.
Daníel Einarsson, 25 ára verkamaður, tengiliður.
Einar Ásbjörn Ólafsson, 26 ára lögreglumaður, tengiliður.
Vilhjálmur Einarsson, 24 ára verkamaður, tengiliður.
Vilberg Þorvaldsson, 22 ára sjómaður, tengiliður.
Klemens Sœmundsson, 21 árs nemi, tengiliður.
Björn Vilhelmsson, 20 ára trésmiður, tengiliður.
Pálmi Einarsson, 30 ára trésmiður, tengiliður.
Grétar Einarsson, 20 ára verkamaður, framlínumaður.
Sverrir Þorsteinsson, 18 ára nemi, framlínumaður.
Guðmundur Jens Knútsson, 29 ára rafvirki, framlínumaður.
Marteinn Geirsson, fyrrum landsliðsmaður úr Fram, þjálfari.
Sigurður Ingvarsson aðstoðarþjálfari.
Gunnar Hasler liðsstjóri.
Tryggvi Einarsson liðsstjóri.
Magnús Þór Magnússon liðsstjóri.
Júlíus Baldvinsson formaður knattspyrnudeildar.