Íþróttir

Hlakkar til að mæta tapsárum bræðrum sínum
Föstudagur 17. nóvember 2017 kl. 05:00

Hlakkar til að mæta tapsárum bræðrum sínum

Dagur Kár Jónsson spilar með liði Grindavíkur í Domino´s deildinni í körfubolta. Grindvíkingar hafa nú unnið fjóra leiki og tapað tveimur en komandi vetur leggst vel í Dag. Það kemst enginn upp með neitt kjaftæði hjá Jóhanni þjálfara og liðið leggur upp með að bæta sig í hverjum leik.
Í síðasta leik liðsins gegn KR slasaðist Dagur á hné á lokamínútu leiksins, en hann telur meiðslin þó ekki vera alvarleg. Hann gæti misst af nokkrum leikjum en það eigi eftir að koma í ljós.

Hvernig leggst veturinn í þig?
„Virkilega vel, við vorum hársbreidd frá titlinum í fyrra og erum með betra lið í ár ef eitthvað er. Ef við leggjum nógu mikið á okkur getum við klárlega farið alla leið.“

Hvernig hafa æfingarnar verið hjá ykkur í undirbúningi fyrir deildina?
„Æfingarnar hafa verið mjög góðar. Það kemst enginn upp með neitt kjaftæði hjá Jóhanni þjálfari, hann tekur þetta dálítið á hörkunni og ég elska það.“

Hvað leggið þið upp með í vetur og hver eru markmið ykkar?
„Við leggjum upp með að bæta okkur með hverjum leik sem við spilum. Það vinnur enginn titil í nóvember eins og oft hefur verið sagt. Við viljum toppa á réttum tíma og langtíma markmiðið er auðvitað að gera betur en í fyrra og það þýðir náttúrulega bara eitt.“

Hver er skemmtilegasti/erfiðasti andstæðingurinn?
„Bræður mínir tveir spila með Keflavík og Stjörnunni, ég hlakka til að mæta þeim á vellinum í vetur. Það ætti að vera skemmtilegt fyrir mig allavega, veit ekki hvort það verður skemmtilegt fyrir þá, þeir eru svo tapsárir…“

Áttu einhverja skemmtilega sögu af liðinu?
„Engar sem hæfa þessu blaði. En mæli eindregið með því að hringja í hann Jens Valgeir liðsfélaga minn, hann er stútfullur af skemmtilegum sögum og slúðri um liðið.“