Hörkuslagur í Ljónagryfjunni
Njarðvíkingar höfðu betur í hörkuviðureign þegar Grindavík mætti í Ljónagryfjuna í gær í Subway-deild kvenna í körfuknattleik. Þá lönduðu Keflvíkingar auðveldum sigri á Fjölniskonum í Blue-höllinni.
Njarðvík - Grindavík 60:56
Leikur Suðurnesjaliðanna var jafn og spennandi og liðin skiptust á forystunni í leiknum.
Njarðvík leiddi með tveimur stigum eftir fyrsta leikhluta (18:16) en Grindavík sneri dæminu við í öðrum leikhluta og hafði forystu í hálfleik (31:33).
Góður þriðji leikhluti hjá Njarðvíkingum kom þeim hins vegar í fimm stiga forystu fyrir síðasta fjórðunginn (48:43) en Grindavík byrjaði fjórða leikhluta með offorsi og jafnaði í 48:48.
Njarðvíkingar bættu þá í og komust í sjö stiga forystu (58:51) og þótt Grindvíkingar hafi minnkað muninn í tvö stig undir lokin (58:56) náðu þær heimakonum ekki og að lokum fór svo að Njarðvík landaði góðum fjögurra stiga sigri eftir hörkuleik (60:56).
Jana Falsdóttir átti flottan leik fyrir Njarðvík og setti niður fimmtán stig, tók þrjú fráköst og átti þrjár stoðsendingar, þá var Emilie Hesseldal öflug undir körfunni með 21 frákast, sjö stig og sex stoðsendingar. Tynice Martin 17/5/1, Ena Viso 13/10/2, Andela Strize 8/0/2 – ekkert stig kom af bekknum hjá Njarðvík í leiknum.
Hjá Grindavík var Danielle Rodrigues fremst í flokki með fjórtán stig, ellefu fráköst og fjórar stoðsendingar. Næst henni var Hulda Björk Ólafsdóttir með ellefu stig, sex fráköst og eina stoðsendingu. Eve Braslis 8/7/0, Hekla Eik Nökkvadóttir 7/2/1, Charisse Farley 5/11/3, Alexandra Sverrisdóttir 5/7/0, Thea Ólafí Lucic Jónsdóttir 3/0/0 og Ólöf Óladóttir 3/4/.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var í Ljónagryfjunni og má sjá fleiri myndir úr leiknum í myndasafni neðst á síðunni.
Keflavík - Fjölnir 103:77
Keflvíkingar átti ekki í vandræðum með Fjölniskonur í gær og eru með fullt hús stiga eftir fjórar umferðir.
Keflavík tók forystuna í byrjun og jók hana eftir því sem leið á leikinn sem endaði með öruggum 26 stiga sigri (103:77).
Daniela Wallen fór fyrir Keflavík í leiknum með 21 stig, níu fráköst og fimm stoðsendingar.
Þá var Anna Ingunn Svansdóttir með tuttugu stig og þrjú fráköst og Thelma Ágústsdóttir með átján stig, þrjú fráköst og þrjár stoðsendingar. Birna Benónýsdóttir 15/2/3, Emelía Ósk Gunnarsdóttir 10/2/1, Elisa Pinzan 7/2/9, Eygló Kristín Óskarsdóttir 5/1/0, Katla Rún Garðarsdóttir 4/3/6 og Agnes María Svansdóttir 3/2/1.