Ingibjörg norskur meistari
Grindvíkingurinn Ingibjörg Sigurðardóttir varð norskur meistari um helgina með liði sínu Vålerenga. Ingibjörg skoraði eitt mark þegar Vålerenga sigraði Arnar-Björnar með fjórum mörkum gegn engu í lokaumferðinni. Þetta er í fyrsta skipti í sögunni sem Vålerenga verður Noregsmeistari.
Ingibjörg hefur leikið frábærlega á sínu fyrsta tímabili í Noregi og verið í lykilhlutverki í liði Vålerenga á leiktíðinni en liðið hefur aðeins fengið á sig fjórtán mörk í átján leikjum.
Ingibjörg og liðsfélagar hennar geta enn unnið tvöfalt því Vålerenga mætir LSK í úrslitum bikarsins um næstu helgi. Þá leikur liðið einnig gegn Bröndby í Meistaradeildinni nú í vikunni.
Það er óhætt að segja að síðasta vika hafi verið viðburðarrík hjá Ingibjörgu. Fyrir utan að verða Noregsmeistari er hún er einn þriggja leikmanna sem eru tilnefndir sem leikmaður ársins í norsku deildinni og þá komst hún einnig með íslenska landsliðinu í lokakeppni EM eftir sigur á Ungverjum.
„Það sem er eftir er bara bónus“
„Þetta er búið að vera flott tímabil,“ segir Ingibjörg Sigurðardóttir, nýkrýndur Noregsmeistari, þegar VF sló á þráðinn til hennar í byrjun vikunnar.
„Flott en mjög langt og margt búið að gerast. Það er gott að vera búin með þetta núna, það sem er eftir er svo bara bónus. Við leikum úrslitaleikinn í bikarkeppninni um næstu helgi og eigum tvo leiki í Meistaradeildinni framundan.“
Byrjaði mjög ung í fótbolta
Ingibjörg byrjaði aðeins þrettán ára gömul að leika með meistaraflokki Grindavíkur, þaðan lá leiðin í Kópavog þar sem hún lék með Breiðabliki í sex ár. Hún hefur verið í atvinnumennsku síðustu þrjú árin, fyrst með Djurgården í Svíþjóð og síðasta árið með Vålerenga í Noregi. Ingibjörg hefur leikið 35 leiki með A-landsliði Ísland sem vann sér sæti í lokakeppni Evrópumótsins sem fer fram á Englandi sumarið 2022, auk þess lék hún 32 leiki með yngri landsliðunum.
„Það eru orðin tíu ár síðan ég byrjaði í meistaraflokki, þetta er alveg ótrúlega fljótt að gerast.“
– Hvenær byrjaðir þú að æfa fótbolta?
„Ég held að ég hafi verið um fjögurra ára, bara í leikskóla. Svo var ég líka í körfubolta þangað til ég varð fjórtán ára, þá tók fótboltinn alveg við.“
– Hvað er svo framundan, hvert stefnirðu?
„Úff, það er svo margt búið að vera í gangi. Ég verð alla vega með Vålerenga á næsta ári – kannski maður reyni að vinna deildina aðeins öruggar þá. Ég ætla að njóta þeirrar stöðu sem ég er í núna og svo tekur maður bara á næsta ári.“
– Hvernig er svo að spila í Noregi?
„Að vera í Noregi er mjög líkt því að vera í Svíþjóð. Deildin hérna er kannski aðeins jafnari en í Svíþjóð, mjög skemmtileg deild. Hún var mjög jöfn alveg í lokin og við enduðum á að vinna á markatölu – gæti ekki verið meira spennandi. Maður vill vera í þannig deild, ekki þar sem maður er að rústa öllum leikjum eða tapa öllu.“
– Ert þú bara ein þarna úti, er engin fjölskylda með þér?
„Nei, ég er bara ein – en ég rétt slepp heim fyrir jólin. Fer beint heim eftir Meistaradeildarleikinn sem verður 17. desember. Þannig að ég rétt næ í hangikjötið. Ég fæ þrjár vikur í frí og svo fer ég aftur út 14. janúar og við byrjum aftur,“ sagði Ingibjörg að lokum.