Samkaup
Samkaup

Íþróttir

Jón Axel sýndi sig í sumardeild NBA
Fimmtudagur 26. ágúst 2021 kl. 15:19

Jón Axel sýndi sig í sumardeild NBA

– leikur með ítölsku liði á næsta tímabili

Grindvíkingurinn Jón Axel Guðmundsson lék með Phoenix Suns í sumardeild NBA-deildarinnar í körfubolta en hann mun leika með ítalska Fortitudo Bologna í vetur eftir árs veru hjá þýska liðinu Fraport Skyliners.

Í sumardeild NBA gefst leikmönnum, eins og Jóni Axel og fleirum sem eru vongóðir um að komast að hjá einhverjum NBA-liðanna, tækifæri til að sýna sig. Jón Axel segir í spjalli við Davíð Eld, blaðamann hjá vefsíðunni karfan.is, að það sé mikill munur á leiknum sjálfum og varnarreglum sem sé erfitt að aðlagast á stuttum tíma. Dómarar leyfa meiri snertingar og þá sé þriggja stiga lína töluvert lengra úti á vellinum en í Evrópu. Hann segir í viðtalinu að hann hafi tekið mikið úr þátttökunni í sumardeildinni.

„Ég held þetta hafi hjálpað mér gríðarlega sem leikmanni að sjá hvað ég þarf að vinna í til þess að komast á þetta „level“ og svo einnig bara hversu mikið þú þarft að leggja inn í þetta. Við vorum í íþróttahúsinu í sex til átta klukkutíma á dag að æfa og lyfta og í „recovery“. Þannig ef við sumardeildarliðið erum svona mikið þarna, geturðu reynt að setja þig í spor leikmanna sem eru í NBA-deildinni og hversu lengi þeir eru þá í íþróttahúsinu. Svo nærðu að setja þig í samband við þjálfara sem eru til staðar fyrir þig allan ársins hring ef þig vantar eitthvað. Þá eru þeir alltaf tilbúnir að hjálpa þér.”

Hann segir að þetta hafi opnað stærri dyr fyrir sig þegar hann spilaði fyrir framan 30 NBA-lið í sumardeildinni í Las Vegas og æfði með Suns í níu daga og spilaði fimm leiki með liðinu. Ég veit að Suns hafa mikinn áhuga á mér þó stigaskor mitt í sumardeildinni hafi ekki verið afburðar. Maður verður bara koma og sýna að maður geti lært, gert litlu hlutina, spila vörn er aðalmálið og svo hreyfa boltann og ekki vera að einspila eða ofdrippla boltanum,” segir Jón Axel í viðtalinu við karfan.is.

Jón Axel er með klásúlu í samningi sínum við ítalska úrvalsdeildarliðið þannig að ef eitthvert NBA-liðið vill fá hann til sín í vetur getur hann farið frá ítalska liðinu.